Innkaupapokar upp á gamla móðinn bestir

Mynd með færslu
 Mynd:

Innkaupapokar upp á gamla móðinn bestir

16.02.2015 - 16:44
Maíspokar hafa gjarnan verið taldir besti kosturinn til að leysa af hólmi venjulega plastpoka sem valda mikilli mengun til langs tíma. Maíspokarnir eru betri en plastið segir Stefán Gíslason en þó þarf að hafa nokkurn fyrirvara á. Bestir séu margnota innkaupapokar.

Stefán Gíslason fjallar um maíspoka og lífplastpoka almennt í Samfélaginu í dag. 

Samfélagið mánudaginn 16. febrúar 2015

[email protected]

------------------------------------------------------------  

Pistill Stefáns - Maíspokar

Plastpokar hafa verið mikið í umræðunni síðustu mánuði – og þá sérstaklega burðarplastpokar sem fólk fær afhenta í verslunum, ýmist ókeypis eða gegn gjaldi. Slíkir plastpokar hafa verið bannaðir í einstökum borgum og jafnvel í heilum löndum – og á Íslandi hafa íbúar og verslunareigendur í einstökum byggðarlögum tekið höndum saman um að hætta að nota poka af þessu tagi. Dæmi um þetta er verkefnið Burðarplastpokalaus Stykkishólmur, en þar í bæ er hvergi lengur hægt að fá einnota burðarpoka úr plasti.

Líklega er flestum ljóst hvers vegna æskilegt er að draga úr notkun einnota plastpoka. Reyndar má nefna nokkrar ástæður fyrir því, en ein sú augljósasta er að alltof stór hluti pokanna strýkur úr vistinni og sleppur út í náttúruna. Þar geta pokarnir velkst um árum, áratugum og öldum saman, og valdið margvíslegum skaða. Dýr geta t.d. kafnað við að gleypa plastpoka eða fá þá utan um hálsinn – og ekki má heldur gleyma plastflákunum sem hafa myndast á nokkrum stöðum í úthöfunum þar sem straumar hafa safnað plastinu saman. Plastpokar eiga sinn þátt í þeim.

Í öllu þessu plastpokatali veltir fólk því eðlilega fyrir sér hvað sé hægt að nota í staðinn. Einn möguleikinn í því sambandi eru svokallaðir lífplastpokar (eða bíóplastpokar), t.d. maíspokar. En þá vaknar auðvitað sú spurning hvort svoleiðis pokar séu eitthvað betri en venjulegir plastpokar þegar allt kemur til alls. Slíkum spurningum er sjaldnast hægt að svara afdráttarlaust með jái eða nei, því að jafnvel þótt svarið virðist augljóst ræðst niðurstaðan alltaf af því hvaða forsendur maður gefur sér. Einnota vörur eru til dæmis aldrei góðar fyrir umhverfið. Hvert sem efnið í pokunum er, er því allra jafna betra frá umhverfislegu sjónarmiði að nota þá ekki heldur en að nota þá. Við ættum sem sagt að draga úr notkun einnota poka og nota fjölnota poka í staðinn.

Líklega erum við orðin of vön einnota pokum til að eiga auðvelt með að hætta notkun þeirra alfarið. Í þessu sambandi er t.d. oft nefnt að þörf sé fyrir þessa poka í ruslaföturnar á heimilinu. Það eru svo sem ágæt rök, en kannanir benda þó til að miklu lægra hlutfall pokanna en menn halda sé í raun notað á þann hátt, sérstaklega á heimilum þar sem stór hluti úrgangsins er flokkaður og honum komið í endurvinnslu. En ef við þurfum einhverja svona poka í ruslaföturnar, þá skiptir auðvitað máli að nota skástu pokana.

Ef við lítum á hráefnið í maíspokum annars vegar og venjulegum plastpokum hins vegar, þá virðast maíspokarnir hafa nokkra yfirburði í umhverfislegu tilliti. Plönturnar sem leggja til efni í þá fyrrnefndu flokkast jú sem endurnýjanlegar, en plastpokarnir eru unnir úr olíu með öllum þeim umhverfisvandamálum sem því fylgir. Almennt má gera ráð fyrir að til þess að framleiða 1 kg af plasti þurfi 2 kg af olíu. Annað kílóið verður að plasti og hitt kílóið brennur í framleiðsluferlinu. Áætlað hefur verið að Íslendingar noti rúm 1.100 tonn af plastpokum árlega og til að framleiða þessa poka hefur þá þurft rúmlega 2.200 tonn af olíu.

En málið er samt ekki svona einfalt, því að maís er ekki það sama og maís. Til að maíspokarnir hafi raunverulegt forskot á plastpokana þarf olíunotkun í ræktun og framleiðslu að hafa verið innan hóflegra marka, og sama má segja um notkun áburðar og varnarefna. Svo skiptir líka miklu máli á hvers konar landi maísinn var ræktaður. Maíspokarnir hætta t.d. fljótt að vera sérlega umhverfisvænir ef skógar hafa verið ruddir til að búa til maísakrana. Og ef ræktunin er í beinni samkeppni við fæðuframleiðslu lítur dæmið heldur ekki vel út. Síðarnefnda atriðið skiptir þó líklega sáralitlu máli enn sem komið er, því að varla þarf meira en um 0,5% af maísframleiðslu Evrópu og Bandaríkjanna til að fullnægja allri eftirspurn eftir lífplasti. Auk þess er sífellt meira af slíku plasti framleitt úr úrgangi. Það þarf sem sagt ekki alltaf maís til.

Ef pokarnir lenda úti í náttúrunni að notkun lokinni eru umhverfislegir yfirburðir maíspokanna nokkuð augljósir. Þeir brotna niður á nokkrum vikum þannig að lítið verður eftir nema koltvísýringur og vatn. Þess vegna eru þeir líka mun síður hættulegir dýrum. Séu pokarnir hins vegar urðaðir að notkun lokinni lítur dæmið öðruvísi út. Þar hefur hið skjóta niðurbrot maíspokana þann galla í för með sér að þeir breytast tiltölulega hratt í metan, sem er um það bil tuttugu sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur. Plastpokarnir liggja hins vegar væntanlega á sínum stað í haugnum um aldir og verða seint eða aldrei að metani. Þeir taka hins vegar sífellt meira pláss á urðunarstöðum heimsins og taka þannig upp land sem vel hefði mátt nota til annars. Nú til dags er reyndar skylda að safna metangasi frá urðunarstöðum og nýta það eða brenna. Þar með er sá vandi maíspokanna að mestu leyti úr sögunni.

Til að geta gefið almennilegt svar við spurningunni um ágæti maíspokanna þarf að skoða ýmsa fleiri þætti en þá sem hér hafa verið nefndir. Það getur t.d. verið auðveldara að endurvinna venjulega plastpoka en maíspoka. Og ef maíspokar blandast saman við plastið getur það spillt endurvinnslunni. Þetta er sem sagt ekki alveg einfalt.

Lausleg könnun á ævisögu þeirra maíspoka sem fáanlegir eru á Íslandi bendir til að hráefnið í þá standist allar helstu umhverfiskröfur. Eftir því sem næst verður komist eru allir þessir pokar gerðir úr svokölluðu Mater-Bi efni, sem framleitt er hjá fyrirtækinu Novamont með höfuðstöðvar á Ítalíu. Þetta efni er framleitt úr fleiru en maís, þ.á.m. úr ýmsum hliðarafurðum, svo sem sellulósa, sem er ekki auðvelt að nýta í aðra framleiðslu. Eftir því sem næst verður komist er framleiðslan aldrei í samkeppni við fæðuframleiðslu og hvergi virðist hafa verið rutt nýtt ræktunarland til að rækta hráefnið. Erfðabreytt efni eru aldrei notuð og pálmaolía og sojabaunaolía koma hvergi við sögu. Auk þess er sífellt unnið að því að þróa orkusparandi vinnsluaðferðir og tækni í endurvinnslu fleygir líka fram.

Spurningin sem ætlunin var að svara í þessum pistli var hvort lífplastpokar væru betri en venjulegir plastpokar frá umhverfislegu sjónarmiði. Kannski er best að orða svarið þannig, að ef ætlunin sé að nota lífplastpokana á nákvæmlega sama hátt og plastpokar hafa verið notaðir, þá séu lífplastpokarnir líklega skárri, sérstaklega ef þeir fjúka út í veður og vind. En svarinu má gjarnan fylgja sú athugasemd að hvorugt sé gott. Við þurfum einfaldlega að draga úr notkun einnota umbúða, hvaða nafni sem þær nefnast. Þess vegna ættum við ekki að láta lífplastið einfaldlega koma í staðinn fyrir venjulegt plast, heldur ættum við að nota þetta tækifæri til að endurhanna allt kerfið og leggja miklu meiri áherslu á hóflega og skynsamlega nýtingu auðlinda en við höfum gert síðustu áratugina. Lífplastið passar vel inn í þá endurskoðuðu heimsmynd.