Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Innkalla kjúkling vegna salmonellu

14.10.2019 - 11:08
Innlent · kjöt · Matvæli
Hráar kjúklingabringur á diski með pasta og tómata í bakgrunni.
 Mynd: Stocksnap.io
Vegna salmonellu hefur Reykjagarður innkallað kjúkling sem seldur er undir vörumerkjunum Holta, Kjörfugl og Krónan. Við reglubundið eftirlit með salmonellu í kjúklingaslátrun kom upp grunur um að salmonella hafi greinst í tveimur kjúklingahópum Reykjagarðs, að því er fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Kjúklingurinn er með rekjanleikanúmerunum 001-19-36-3-02 og 001-19-37-3-17. Dreifing á kjötinu hefur verið stöðvuð og Reykjagarður hefur þegar hafið innköllun. Í tilkynningu Reykjagarðs segir að kjúklingurinn sé hættulaus fyrir neytendur ef leiðbeiningum á umbúðum er fylgt. Passa þurfi að blóðvökvi komist ekki í aðra matvöru og steikja kjötið vel í gegn.

Neytendur sem hafa keypt kjúklinga með þessu rekjanleikanúmeri eru beðnir að skila vörunni í verslun þar sem varan var keypt eða beint til Reykjagarðs að Fosshálsi 1, 110 Reykjavík.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir