Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Innheimt í göngunum eftir smá gjaldfrjálst hlé

26.06.2018 - 15:00
Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir / Þórgunnur Oddsdóttir
Kristján L. Möller, fyrrverandi samgönguráðherra, leggur til, þó að hætt verði innheimta gjöld í Hvalfjarðargöngum í haust, að eftir hálft eða eitt ár verði aftur byrjað að innheimta gjöld með rafrænum hætti til að fjármagna nauðsynlegar vegabætur á Vesturlandvegi að göngunum. Gjaldið gæti numið um 100 krónum á bíl.

Þó að gjöld af bifreiðum sem ríkið innheimtir hafi aukist á síðustu árum hafa gjöld af hverri bifreið að meðaltali minnkað. Það helgast af því að umhverfisvænum bílum svo sem rafbílum sem fá afslátt af gjöldunum hefur fjölgað og á eftir að fjölga enn meira. Nefnd er að störfum sem á að koma með tillögur um hvernig innheimtu af bílum verður háttað í framtíðinni. Á sama tíma er nokkuð ljóst að ríkissjóður ræður ekki við nauðsynlegar  vegabætur og samgönguframkvæmdir. 

Veggjöld og tímagjöld

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, viðraði á Samgönguþingi í síðustu viku, hugmyndir um að leggja á veggjöld vegna tiltekinna stórframkvæmda og einnig það sem hann kallaði tímagjöld. Þau mætti líka kalla afnotagjöld því þau miðast við að innheimt er gjald fyrir keyrslu um um vegina. Slík gjöld hafa um langt tímabil verðir innheimt í Austurríki og eru jafnframt innheimt í Búlgaríu, Tékklandi, Ungverjalandi, Slóvakíu, Slóveníu og Rúmeníu. Allir bifreiðareigendur verða að greiða gjaldið sem er nokkuð mismunandi eftir löndum. Í Austurríki er ársgjaldið tæpar 10 þúsund krónur. Fyrir 2 mánuði um 3 þúsund krónur og 10 daga  8 evrur eða um eitt þúsund krónur. Þetta gjald, tímagjaldið, myndi ná til erlendra ferðamanna. 

23% af heildarakstri

Samkvæmt könnun RRF, Rannsókna og ráðgjafar ferðaþjónustunnar, er talið að 1,2 milljónir ferðamanna hafi notað bílaleigubíla á síðasta ári eða sem nemur um 60 af hundraði þeirra sem hingað komu. Þetta erum  um 7 sinnum fleiri en leigðu bíl árið 2009. Talið er að þeir sem tóku bílaleigubíl hafi að meðaltali ekið yfir 15 hundruð kílómetra þá 7 daga sem þeir óku um íslenska vegi að metaltali. Áætlað er að akstur erlendra ferðamanna hafi numið um 23% af heildarakstri einkabíla í fyrra.  Lauslega  er áætlað að þessir erlendu ferðamenn hafi greitt um 10 milljarða í eldsneytisgjöld sem renna í ríkissjóð.

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Kristján L. Möller

Þurfum að taka af skarið

Saga vegatolla á Íslandi er ekki löng. Innheimt voru veggjöld þegar Keflavíkurvegurinnn var lagður 1960. Ekki við mikinn fögnuð sumra því kvrikt var í innheimtuskýlinu daginn fyrir opnunarathöfnina. Svo hafa verið innheimt gjöld í Hvalfjarðargöngum í 20 ár. Þeirri innheimtu lýkur í haust. Nokkrir samgönguráðherrar hafa rætt um að koma á einhvers konar veggjöldu, Sturla Böðvarsson, Kristján Möller, Jón Gunnarsson og nú Sigurður Ingi Jóhannsson. Kristján Möller var samgönguráðherra frá 2007 til 2010. Hann var með hugmyndir um að tekin yrðu lán hjá lífeyrissjóðum sem greidd yrðu niður með veggjöldum. Ekkert varð úr því né öðrum hugmyndum sem ræddar hafa verið um vegatolla á síðustu árum. Kristján Möller segir að nauðsynlegt sé að taka af skarið í fjármögnun vegaframkvæmda.

„Við þurfum að færa okkur til nútímans. Við þurfum einfaldlega að viðurkenna að til þess að fara í meiri samgönguframkvæmdir, sem margar hverjar snúast um aukið öryggi, þarf  nýjan tekjustofn. Löndin í kringum okkur, út um alla Evrópu og í Vesturheimi hafa öll tekið upp veggjöld vegna ákveðinna stórmannvirkja. Það er það sem við þurfum að gera hérna á Íslandi. Við vorum byrjuð að vinna mikið með þetta í framhaldi af hruninu 2008 og stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar. Síðan stoppaði sú vinna og það hefur ekkert verið gert í þessu í 10 ár nema að skrifa eina eða tvær skýrslur í viðbót. Framkvæmdirnar hafa engar verið og það eru 10 ár síðan,“ segir Kristján.

Fólk hefur ekki trú á veggjöldum

Þá á reyndar að innheimta gjöld í Vaðlaheiðargöngum þegar þau verða tilbúin. Ástæðan fyrir því að veggjöld hafa almennt ekki komist á er væntanlega sú að mikil andstaða er við að þau. 

„Við þurfum einfaldlega að setja þetta í þann búning að reyna að skapa pólitíska sátt með samtali og samræðu milli flokka á Alþingi. Grundvallaratriðið er kannski það að fólk hefur ekki trú á að veggjöld, sem yrðu innheimt, færu öll í samgöngur og framkvæmdir. Þess vegna þarf að hafa það alveg klárt að það þarf að stofna opinbert hlutafélag sem fær þessar tekjur. Og það er slegið í gadda að allir þeir peningar sem koma inn vegna veggjalda verði notaðir til framkvæmda“ segir Kristján. 

Innheimtu haldið áfram í Hvalfjarðargöngum

Jón Gunnarsson þáverandi samgönguráðherra skipað starfshóp til að leggja fram hugmyndir um veggjöld til að standa straum af kostnaði við vegabætur á  helstum umferðaræðum til og frá höfuðborginni. Kristján Möller var í þessum starfshópi sem lagði til ákveðnar tillögur. Hann viðrar nú hugmynd til að afla fjár vegna vegabóta á Vesturlandsvegi að Hvalfjarðargöngunum. Hann bendir á að Hvalfjarðargöng verði gjaldfrjáls í haust.

„Höfum þau gjaldfrjáls í svona hált til eitt ár. Ryðjum í byrtu þessum gjaldskýlum og setjum upp nútíma rafræna gjaldheimtu. Við skulum segja 100 krónur á ferð eða eitthvað svoleiðis,“ segir Kristján sem leggur til að stofnað verði opinbert hlutafélag sem gjaldið rynni til. „Byrjum á framkvæmdum á Vesturlandsvegi. Frá Reykjavík að göngunum og jafnvel upp í Borgarnes. Framkvæmdir sem kosta kannski um 10 milljarða. Það er hægt að byrja strax og gæti lokið á um þremur árum. Látum þetta gjald fjármagna framkvæmdina. Þá erum við byrjuð og getum skoðað þetta áfram og séð hvort ekki er hægt að þróa fína og góða aðferð til að fá meira fé inn og stórauka þessar brýnu framkvæmdir, sérstaklega til og frá höfuðborgarsvæðinu sem eru líka og ekki síst mikið öryggisatriði,“ segir Kristján L. Möller.