Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Innflytjendur hafi misst af nokkrum vikum

Mynd með færslu
 Mynd: Rætur - RÚV
Síðustu daga hefur upplýsingagjöf til innflytjenda verið stórbætt en framan af var skortur á upplýsingum á öðrum tungumálum. Í Svíþjóð reyndist slíkur upplýsingaskortur afdrifaríkur. Sabine Leskopf, formaður fjölmenningarráðs Reykjavíkurborgar og borgarfulltrúi Samfylkingar, segir að vantraustið hverfi ekki með einni þýðingu. 

Ekki fengið sama tækifæri til að byggja upp traust til þríeykisins

Um fimmtungur íbúa á Íslandi er af erlendum uppruna. Margir skilja og tala íslensku en það er stór hópur sem gerir það ekki. Foreldrar af erlendum uppruna senda börn sín síður í skóla en aðrir og margir í hópi innflytjenda furða sig á því hvers vegna stjórnvöld hér grípi ekki til jafn harðra aðgerða til að stemma stigu við útbreiðslu Covid-19 og stjórnvöld í heimalöndum þeirra.

Nú er búið að snara upplýsingasíðunni Covid.is yfir á átta erlend tungumál. Sabine segir mikið átak hafa verið í gangi síðustu daga, Vinnumálastofnun til dæmis farin að veita ráðgjöf í síma. „En fólk hefur kannski misst af heilum fjórum vikum eða meira til að byggja upp þetta traust sem við höfum til þríeykisins og þessa þekkingu sem við höfum. Einnig snýst þetta ekki allt bara um tungumálið. Það er líka ákveðinn munur hvað varðar innflytjendur. Þeir  skoða náttúrulega mjög mikið upplýsingar að heiman, heimasíður, aðgerðir og aðferðafræði í öðrum löndum og bera það saman. Það sem ég heyri mikið er að fólki finnst þetta ekki nógu strangt hér, ekki nógu langt gengið. Það ber saman og skilur kannski ekki alveg hugsunina á bak við aðferðafræðina hér.“

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Frá einum af mörgum upplýsingafundum Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

Streituvaldur að geta ekki sinnt ættingjum í heimalandinu

Sabine segir líka mikilvægt að taka tillit til sérstakra aðstæðna innflytjenda. „Aðstæður innflytjenda eru öðruvísi og það er rosalega mikilvægt að hafa það í huga að flestir innflytjendur hér hafa ekki eldri ættingja hér á landinu, sá hópur er erlendis og margir hafa gífurlegar áhyggjur af þeim og þetta er auka streituvaldur. Ég lenti nú sjálf í því núna í síðustu viku að missa frænda, ekki úr veirunni, það var bara hans tími, en það er svo mikið aukaálag því bæði hef ég áhyggjur af pabba mínum, hann gat ekki kvatt bróður sinn, ég gæti ekki bara hoppað í flugvél, það verður hvort sem er ekki jarðarför, ég get ekki komist nálægt foreldrum mínum. Þetta er aukaálag á innflytjendur,“ segir Sabine. 

Sómalska samfélagið í Svíþjóð var illa upplýst

Stór hluti af þeim sem látist hafa úr COVID-19 í Svíþjóð er af sómölskum uppruna. Þetta hefur verið skrifað á tvennt, annars vegar að stjórnvöld hafi byrjað of seint að miðla upplýsingum á öðrum tungumálum en sænsku og gert of lítið af því. Í öðru lagi sé mikill samgangur meðal Sómala og mikið lagt upp úr því að heimsækja og hjálpa fólki sem er veikt. 

Sabine telur ólíklegt að sambærileg staða komi upp hér. Upplýsingar um sjúkdóminn og varúðarráðstafnir hafi líklega ratað til langflestra. Fólk sæki sér upplýsingar á sínu eigin tungumáli í gegnum netið. Þá miðli Rauði krossinn upplýsingum eftir bestu getu, hann hafi aðgang að upplýsingum á mörgum tungumálum enda starfandi um allan heim. 

Fólk túlki hluti á versta veg í panikkástandi

Sabine hefur vaktað umræðuna í Facebook-hópum innflytjenda og segir svipaðar spurningar vakna hjá þeim og öðrum. Það hafi þó líka farið af stað sögur. „Til dæmis um að fólk hafi kannski ekki fengið próf því það talaði ensku sem er örugglega ekki rétt, ég bara get ekki trúað þessu en ég veit líka af reynslu minni sem túlkur að í svona panikkaðstæðum túlkar fólk allt á versta veg. Það skiptir ekki máli þó það skilji allt saman.“

Leggjast yfir aðgerðapakkann

Hún segir að margir hafi miklar áhyggjur af flugsamgöngum, að komast ekki heim. Þá hafi fólk áhyggjur af réttindum sínum á vinnumarkaði. „Ég sit líka í innflytjendaráði hjá félagsmálaráðuneytinu og við förum að skoða aðgerðapakkann með þeim gleraugum. Til dæmis hafa margir sem eru á tímabundnu atvinnuleyfi sem sérfræðingar og frá löndum utan EES áhyggjur af því að þeir fái ekki sömu réttindi en þetta er í skoðun.“

Fólk einblínir á öryggi barnanna 

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Pólsk menningarhátíð: Hér á landi býr fjöldi fólks frá Póllandi.

Sabine segir starfsfólk Reykjavíkurborgar hafa orðið vart við það að foreldrar af erlendum uppruna sendi börn sín síður í skóla en aðrir. Fólk hafi mestar áhyggjur af börnunum og einblíni á þau því eldri ættingjar séu yfirleitt í öðrum löndum. Hún segir að á þessum tímum sé það gulls ígildi að hafa starfsfólk af erlendum uppruna í stjórnsýslunni, brúarsmiði sem geti miðlað upplýsingum til innflytjendahópa. „Á skóla og frístundasviði eru brúarsmiðir starfandi sem hafa haft samband og geta svarað í símann, þýtt og túlkað, það er gífurlega mikilvægt.“

Nær engir innflytjendur í ráðuneytunum

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Forsætisráðuneytið

Sabine bendir á að í fyrra hafi komið út skýrsla sem sýndi að af hátt í 800 starfsmönnum ráðuneytanna hér sé aðeins einn af erlendum uppruna. Sabine segir að það taki tíma að byggja upp traust, þessa vegna skipti máli að gefa fólki tækifæri í stjórnsýslunni. Hún nefnir dæmi um konu af erlendum uppruna sem starfað hefur hjá borginni í 20 ár, allir þekki hana og treysti. Hún nefnir líka fréttaþjónustu RÚV á ensku. Sú þjónusta hafi skipað sér sess á síðustu mánuðum og margir séu nú farnir að nýta sér hana. Þá sé jákvætt að fjölmiðlar séu nú farnir að birta stöku frétt á pólsku. „En ef ég tala bara pólsku þá byrja ég náttúrulega ekki núna upp á mitt einsdæmi að fletta upp á Rúv.is. Þá þurfið þið kannski pólskumælandi manneskju sem er að blasta þetta inn á sína Facebook-hópa,“ segir Sabine. 

Ein þýðing reddi ekki málunum

Hún segir að upp á traustið sé mikilvægt að fólk af erlendum uppruna sé í foreldrafélögum, í stjórnum íþróttafélaga, í húsfélaginu, allsstaðar bara. „Það er það sem skiptir svo miklu máli, ef fólk hefur ekki byggt upp þetta traust þá reddar ekki ein þýðing málið - en í þessu felst náttúrulega líka svo mikið tækifæri núna.“

Fjölmenningarráð hefur unnið stíft að því síðustu daga að miðla upplýsingum til innflytjenda. Sabine telur að heilbrigðisyfirvöld og allir í samfélaginu vilji gera sitt besta í þjónustu við þennan hóp. Sabine telur að bæta megi upplýsingagjöfina til framtíðar. „Við verðum að einbeita okkur núna að því að gera okkar besta í þessu ástandi núna, það er kannski ekki hægt að gera mikið meira í augnablikinu, þannig að allar hendur upp á dekk að vinna að þessu verkefni núna en þegar við erum komin yfir það versta held ég að við mættum kannski staldra við og sjá hvað við getum lært, hvernig við getum byggt upp þetta traust betur.“

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV