Ingimar hættir sem oddviti út af vali á Þ-H leið

27.02.2020 - 10:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV grafík - RÚV
„Það er fyrst og fremst þetta vegamál sem hefur verið allsráðandi í pólítíkinni hérna, og ég svo sem er ekki sammála meirihluta sveitarstjórnar, þannig að ég get ekki hugsað mér að leiða sveitarstjórn sem ég er ekki sammála,“ segir Ingimar Ingimarsson sem óskaði eftir því á fundi Reykhólahrepps á þriðjudag að hætta. Árný Huld Haraldsdóttir var kosin oddviti á sama fundi.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti á fundi sínum á þriðjudag að veita Vegagerðinni framkvæmdaleyfi fyrir Þ-H leið um Teigsskóg. Ingimar greiddi einn atkvæði gegn tillögunni. Í yfirlýsingu sem Ingimar lagði fram á fundinum sagðist hann ekki geta komið fram fyrir hönd sveitarstjórnarinnar og stutt ákvörðun hennar. Ingimar hyggst starfa áfram í sveitarstjórn og er nú varaoddviti. 

Tekist hefur verið á um það árum saman hvar vegurinn eigi að liggja, skýrslur verið skrifaðar og nokkrir kostir komið til tals. Samningar hafa ekki náðst við alla landeigendur og líklegt að framkvæmdaleyfið verði kært. 

„Ég held að þetta sé sextánda eða sautjánda árið sem menn eru að takast á um þetta mál. Kannski hugsanlega sér fyrir endann á því,“ segir Ingimar.

En það er samt ekkert endilega víst? „Ó nei. Nú eiga allir kærufrestir eftir að  opnast þegar við veitum framkvæmdaleyfið sjálft. Þá reikna ég með því að jarðeigendur, allavega á að minnsta kosti tveimur jörðum kæri þetta allt saman.“

Í bókun Ingimars á fundinum segir hann að allir séu sammála um nauðsyn sé á samgöngubótum um Reykhólahrepp til þess að losna við fjallvegi. Hvergi hafi þó Vegagerðin eða nokkur annar sýnt fram á nauðsyn þess að fara um Teigskóg umfram aðrar leiðir til að útiloka þá fjallvegi.

Þ-H leiðin taki ekki á mesta þröskuldi leiðarinnar að öðrum sveitarfélögum á sunnanverðum Vestfjörðum, Klettshálsi. Sú leið sé lang oftast ófær af þeim hálsum sem þurfi að keyra að öðrum sveitarfélögum á sunnanverðum Vestfjörðum.

„Ég var að benda á það að þessi brýna nauðsyn að fara þessa leið til þess að komast á sunnanverða Vestfirðina er í rauninni ekki alveg satt því Klettshálsinn er alltaf eftir. Það á eftir að bæta veginn þar eða bora þar í gegn eða hvað sem menn ætla að gera. Ég hef hvergi séð neinar almennilegar tillögur í því.“

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi