
Ingibjörg Sólrún í hátt embætti hjá ÖSE
Frétt Vísis byggir á frétt frá Reuters. Þar er haft eftir Sebastian Kurz, utanríkisráðherra Austurríkis sem nú er í forsæti ÖSE, að mikið og djúpstætt vantraust ríki nú milli aðildarríkja stofnunarinnar, ekki síst vegna Úkraínudeilunnar. Kurz lagði fram tillögu um mönnun embættanna fjögurra í gær. Hann segir að það sé ekki síst stuðningi Rússa að þakka, að pólitísk sátt hafi náðst um þær.
Thomas Greminger, þaulreyndur diplómat og fulltrúi Svisslendinga hjá ÖSE til margra ára, verður framkvæmdastjóri ÖSE. Ítalinn Lamberto Zannier, fráfarandi framkvæmdastjóri ÖSE, mun fara með málefni þjóðarbrota og minnihlutahópa en Harlem Desir, fyrrum formaður franska Sósíalistaflokksins, mun hafa yfirumsjón með fjölmiðlafrelsi. Lýðræðis- og mannréttindaskrifstofa ÖSE, sem Ingibjörg Sólrún mun stýra, hefur meðal annars yfirumsjón með kosningaeftirliti ÖSE.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, fagnar fréttunum af fyrirhugaðri skipun Ingibjargar í forstjóraembættið. Í færslu á Facebook-síðu sinni segir Guðlaugur að íslenska utanríkisþjónustan, hann þar með talinn, hafi unnið með Ingibjörgu að þessu framboði mánuðum saman.