Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Indverjar aflýstu geimskoti á síðustu stundu

14.07.2019 - 23:10
Mynd með færslu
 Mynd: Isro
Indverska geimferðastofnunin aflýsti á síðustu stundu fyrirhugaðri tunglferð Chandrayaan-2 tunglflaugarinnar í kvöld. Innan við klukkustund var í geimskotið þegar það var blásið af „vegna tæknilegra vandamála.“ Indverjar hugðust verða fjórða þjóðin til að lenda geimfari á tunglinu, á eftir Bandaríkjamönnum, Rússum og Kínverjum og hafa undirbúið leiðangur Chandrayaan 2 í tíu ár.

„Tæknilegt vandamál uppgötvaðist í geimflauginni á T mínus 56 mínútur,“ segir í tilkynningu Isro, indversku geimferðastofnunarinnar, á Twitter, sem þýðir að 56 mínútur voru í áætlað geimskot þegar vandamálið uppgötvaðist. Til að gæta fyllsta öryggis og ýtrustu varfærni var því ákveðið að fresta geimskotinu, segir í tilkynningunni, og verður ný dagsetning kynnt síðar. Ekki var greint frá eðli vandamálsins eða umfangi eða hversu lengi ætla má að fresta þurfi geimskotinu.

Tungflaugin nær al-indversk framleiðsla

Sem fyrr segir hafa Indverjar unnið að tungllendingunni síðustu tíu ár eða svo og sent tvær könnunarflaugar á braut um tunglið sem lið í þeim undirbúningi. Kostnaðurinn hefur þó verið óvenju lágur miðað við það sem gengur og gerist í geimferðabransanum, eða sem svarar um 20 milljörðum króna.

Flutningsflaugin, geimfarið og tunglferjan sem lenda skal á yfirborði tunglsins, allt er þetta nánast alfarið hannað og byggt á Indlandi.

Efasemdarfólk hefur varað við því að eyða svo litlum fjármunum í þetta og benda á að verð og gæði fari jafnan saman í þessum geira; menn fái það sem þeir borgi fyrri. Þessir ódýru geimfarkostir Indverja muni varla endast lengur en eitt ár eða svo, mun skemur en aðrar og dýrari gerðir tunglflauga.