Indónesar óska eftir alþjóðlegri aðstoð

01.10.2018 - 04:07
Erlent · Hamfarir · Asía · Indónesía
epa07058998 An aerial view taken with a drone camera of an earthquake devastated mosque and surrounding area in Palu, Central Sulawesi, Indonesia, 30 September 2018. According to reports, at least 832 people have died as a result of a series of powerful
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ríkisstjórn Indónesíu kallar eftir alþjóðlegri aðstoð til að takast á við eftirköst endurtekinna jarðskjálfta og flóðbylgja í landinu. Að minnsta kosti 832 eru látnir af völdum jarðskjálfta sem varð á föstudaginn og flóðbylgju sem fylgdi á eftir. Óttast er að mun fleiri eigi eftir að finnast látnir.

AFP fréttastofan hefur eftir Tom Lembong, sem fer með opinber útgjöld stjórnvalda, að Joko Widodo forseti hafi beðið hann um að óska eftir alþjóðlegri aðstoð. Fjöldi hjálparsamtaka hafa boðið fram aðstoð sína.
Eyðileggingin á eyjunni Sulawesi er gríðarleg eftir hamfarirnar á föstudag. Fjöldi bygginga er hruninn og er enn verið að leita tuga sem talið er að séu fastir undir húsarústum í borginni Palu. Þá hefur gengið illa að ná sambandi við nærliggjandi héruð, sem voru nær upptökum jarðskjálftans en Palu. 

Jarðskjálftinn mældist af stærðinni 7,5 og voru upptök hans um 80 kílómetra undan strönd Palu. Um eins og hálfs metra há flóðbylgja fylgdi í kjölfarið sem braut sér leið langt inn í land af miklum krafti og lagði fjölda mannvirkja í rúst. Sutopo Purwo Nugroho, talsmaður almannavarna í Indónesíu, segir að enn fleiri eigi eftir að finnast látnir, og óttast að fjöldi látinna hlaupi á þúsundum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi