ÍLS skoðar Heimavelli eftir skráningu á markað

07.06.2018 - 18:50
Mynd með færslu
 Mynd: Steingrímur Dúi Másson - RÚV
Fjármálaeftirlitið hefur gert athugasemdir við útlán Íbúðalánasjóðs til óhagnaðardrifinna leigufélaga vegna þess að þau hafi í raun verið rekin í hagnaðarskyni. Aðstoðarforstjóri sjóðsins vill að reglum um lánin verði breytt og hefur beðið ráðherra að endurskoða þær. Félagið Heimavellir eru til sérstakrar skoðunar hjá sjóðnum eftir skráningu þess á markað.

Í reglugerð frá 2013 eru settar skorður við lánveitingum Íbúðalánasjóðs til leigufélaga. Samkvæmt henni má sjóðurinn aðeins veita slík lán til félaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og mega ekki greiða út arð til eigenda. 

Mest til Heimavalla

Fjölmiðlar, bæði Kjarninn og Fréttablaðið, hafa að undanförnu fjallað um málefni leigufélagsins Heimavalla, sem á um tvö þúsund íbúðir á landinu öllu, flestar á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu.

Íbúðalánasjóður hefur lánað yfir 18 milljarða á grundvelli reglugerðarinnar en segist ekki mega upplýsa um nákvæma skiptingu á félög – búið sé að óska eftir samþykki félaganna fyrir slíkri upplýsingagjöf. Þó hefur verið upplýst að mest, um 44%, hafi verið lánað til félaga í eigu Heimavalla – reyndar meira og minna áður en Heimavellir keyptu félögin. Í upphafi mánaðar voru Heimavellir svo skráðir á markað.

Geta samt grætt

Þrátt fyrir að félög sem fá þessi lán megi ekki vera rekin í hagnaðarskyni og greiða út arð geta eigendurnir engu að síður grætt á þeim eftir að hafa komist af stað með lánum frá Íbúðalánasjóði. Ein leið er að selja félagið. Önnur leið er að endurfjármagna Íbúðalánasjóðslánin, greiða þau upp, losna þannig undan kvöðunum í reglugerðinni og greiða sér út arð.

Þetta er nákvæmlega það sem Heimavellir hafa í hyggju og segja berum orðum í skráningarlýsingu sinni í Kauphöllinni. Við þær aðstæður er eðlilegt að sú spurning vakni hvort félagið sé rekið í hagnaðarskyni eða ekki.

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Anna Guðmunda Ingvarsdóttir

„Við vinnum eftir lögunum“

„Það er nú bara eins og það er – við vinnum eftir lögunum þannig að við þurfum bara að meta þau skilyrði sem lögin setja okkur. Það eru skilgreiningar í lögum og reglugerðum um hvað telst vera rekið ekki í hagnaðarskyni,“ segir Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri Íbúðalánasjóðs.

„Við erum að skoða sérstaklega núna varðandi Heimavelli eftir skráninguna hvort þessi skilyrði eru öll áfram uppfyllt. Við teljum svo sem ekki ástæðu til að ætla annað. “

„Túlkunarágreiningur“ um hvenær félög eru hagnaðardrifin

Fjármálaeftirlitið hefur gert athugasemdir við þessar lánveitingar. Í haust gaf eftirlitið út svokallaða gagnsæistilkynningu og sagði að athugun hefði leitt í ljós að tiltekið félag hefði fengið þessi lán þrátt fyrir að vera raunverulega rekið í hagnaðarskyni. Ekki kemur fram hvert félagið er en samkvæmt upplýsingum fréttastofu er það ekki eitt félaga Heimavalla.

Íbúðalánasjóður sagði í svari sínu að uppi væri „túlkunarágreiningur“ á milli Íbúðalánasjóðs og Fjármálaeftirlitsins um það hvenær félög væru rekin í hagnaðarskyni en benti einnig á að lánin hefðu verið veitt í tíð fyrri stjórnenda og verklagið síðan tekið til endurskoðunar.

Meta þarf hvort útiloka skuli hlutafélög og einkahlutafélög

Sjóðurinn beindi því samt sem áður til ráðherra að lögin þyrfti að endurskoða og hafa upprunalegan tilgang að leiðarljósi: að byggðar verði leiguíbúðir á viðráðanlegu verði. Meta verði á nýjan leik hvort útiloka skuli hlutafélög og einkahlutafélög frá slíkum lánum.

Í kjölfarið var heimildin takmörkuð við svæði þar sem markaðsbrestur ríkir og samkvæmt upplýsingum frá félagsmálaráðuneytinu stendur nú stefnumótun um framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs á lánamarkaði.

Áhyggjur af þeim sem eyða of miklu í leigu

Anna segir að sjóðurinn hafi áhyggjur af því að viss hópur í samfélaginu verji allt of háum hluta tekna sinna í leigu. „Að okkar mati þurfum við aðeins að setja fókusinn meira á þessa hópa og þá kanna hvort við þurfum að fara í einhverjar breytingar á þessum reglum til að uppfylla það betur,“ segir hún.

Íbúðalánasjóður kallaði nýverið eftir upplýsingum frá leigufélögum um leiguverð í kjölfar ábendinga sem höfðu borist um óeðlilega miklar hækkanir. Svör eru tekin að berast frá félögunum en ekki er von á niðurstöðu úttektarinnar fyrr en í lok mánaðar.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi