Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Illræmdir ISIS-liðar í haldi Bandaríkjamanna

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Tveir Bretar, illræmdir liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Íslamska ríkisins, eru nú í haldi Bandaríkjamanna. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, greindi frá þessu á Twitter.

Hann sagði að mennirnir, sem voru í haldi Kúrda, hefðu verið fluttir frá Sýrlandi og dveldu nú á öruggum stað sem lyti yfirráðum Bandaríkjamanna.

Mennirnir voru í fjögurra manna hópi breskra ríkisborgara sem gekk til liðs við Íslamska ríkið. Þeir voru gjarnan kallaðir The Beatles og kom sú nafngift frá gíslum þeirra.

Hópurinn er sakaður um að hafa pyntað og tekið af lífi fjölda útlendinga í Írak og Sýrlandi á árunum 2014-2015, þar á meðal bandaríska blaðamanninn James Foley.

Auk þessara tveggja er einn fjórmenninganna í haldi Tyrkja, en sá fjórði féll í Raqqa í Sýrlandi í nóvember 2015 í drónaárás Bandaríkjamanna.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV