Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Illa undirbúin fyrir ný persónuverndarlög

11.07.2018 - 13:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Ingi Garðarsson o - RÚV
Mörg sveitarfélög eru illa undirbúin fyrir breytingu á persónuverndarlögum sem tekur gildi á sunnudag. Þetta segir Guðjón Bragason, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Afar flókið verði að afhenda fólki afrit af öllum persónuupplýsingum sem sveitarfélag geymi um það.

Guðjón segir að það geti kostað sveitarfélögin hátt í milljarð króna að innleiða ný persónuverndarlög. „Það liggur náttúrulega fyrir að þau verða ekkert tilbúin fyrir þessi lög frekar en sennilega flestir aðrir sem lögin ná til. Fresturinn er alltof skammur. Lagafrumvarp sáum við ekki í endanlegri mynd fyrr en í lok maí, svo var það bara orðið að lögum í byrjun júní. Hvers konar vinnu þurfa sveitarfélög að ráðast í? Ágætt fyrsta skref er að ráða persónuverndarfulltrúa. Þau eru mörg búin að því en einhver eru eftir. Síðan þarf líka að greina alla vinnslu persónuupplýsinga sem er í gangi hjá sveitarfélaginu. Og þá erum við að tala um allar stofnanir sem geta verið til dæmis leikskólar, félagsþjónusta, veitustofnanir. Þá eru launaupplýsingar töluvert fyrirferðarmiklar hjá sveitarfélögum líka,“ segir Guðjón.

Þá geti það verið erfitt fyrir minni sveitarfélög að ráða sér persónuverndarfulltrúa. „Það er hægt að bregðast við með því að vera í samstarfi við fleiri sveitarfélög og einhver dæmi eru um það. Það er líka hægt að kaupa þjónustu af þessum toga til dæmis af lögmannsstofum. En þetta eru náttúrulega ný útgjöld fyrir sveitarfélögin. Við erum að tala hér um nýjan kostnað sem getur numið hátt í milljarði fyrir sveitarfélögin í heild að innleiða þessi lög. Það eru ekki peningar sem maður tínir af trjánum,“ segir Guðjón.

Óvíst sé hvort margir setji sig í samband við sveitarfélag til að fá afrit af öllum persónuupplýsingum um sig. „Við rennum auðvitað algjörlega blint í sjóinn með það. En slík erindi verða náttúrulega bara mjög flókin að eiga við. Þjónusta sveitarfélaga er svo margþætt. Þannig að það að reyna að ná öllum upplýsingum sem til eru um einhvern einstakling í sveitarfélaginu. Það er ekki eitthvað sem er til miðlægt á einum stað,“ segir Guðjón.