Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ígrunda að loka á smálánafyrirtæki

06.05.2019 - 16:05
Mynd með færslu
 Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson - RÚV
Sparisjóður strandamanna, sem veitir smálánafyrirtækjum aðgang að greiðslumiðlunarkerfi bankanna, skoðar nú hvort unnt sé að loka á viðskiptin. Fjallað var um smálánafyrirtæki í fréttaskýringaþættinum Kveik síðastliðinn þriðjudag. Þar kom fram að Sparisjóður strandamanna er eina fjármálafyrirtækið sem aðstoðar smálánafyrirtækin við greiðslumiðlun. Björn Líndal sparisjóðsstjóri sagði í samtali við fréttastofu RÚV í dag að málið sé í vinnslu.

Björn segir að fjármálafyrirtæki geti ekki lokað á viðskipti við fyrirtæki án gildrar ástæður.  Nýlega var Valitor dæmt til greiðslu skaðabóta fyrir að loka á greiðslur til Wikileaks.

„Við erum að skoða til hvaða ráða við ætlum að grípa,“ segir Björn. Málið sé í vinnslu með þar til bærum yfirvöldum, sem eru Fjármálaeftirlitið. Viðskipti við smálánafyrirtæki séu ekki stór hluti af starfsemi sparisjóðsins.

Höfuðstöðvar Sparisjóðs Strandamanna eru á Hólmavík. Starfsmennirnir eru alls sex.