Ígildi þess að 1.400 missi vinnuna í Reykjavík

30.09.2019 - 18:24
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Það að öllum starfsmönnum Ísfisks á Akranesi hafi verið sagt upp störfum í dag, um sextíu manns, jafngildir því fyrir bæjarfélagið að 1.400 manns yrði sagt upp á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. Anna Kristín Jónsdóttir ræddi við hann í Speglinum nú á sjöunda tímanum.

„Þetta er gríðarlegt högg fyrir okkur,“ segir Vilhjálmur. Starfsfólk hafi verið boðað á fund í dag þar sem tilkynnt var um uppsagnirnar með fyrirvara um endurfjármögnun, en fyrirtækið hefur átt í fjárhagsvandræðum síðustu vikur. Það sé enn von að fólk geti haldið vinnunni ef það gengur eftir að endurfjármagna fyrirtækið. Það komi endanlega í ljós eftir um tvær vikur.

„Þetta er sama fólk og þurfti að lúta því að missa vinnuna þegar HB Grandi hætti hér á sínum tíma. Þetta er ígildi þess að 1.400 manns missi vinnuna á höfuðborgarsvæðinu. Það er hægt að ímynda sér hversu mikið högg þetta er fyrir sveitarfélagið hér,“ segir Vilhjálmur Birgisson.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi