Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Icelandair reiknar ekki með MAX-vélum í sumar

22.01.2020 - 06:34
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Icelandair gerir ekki ráð fyrir Boeing MAX vélum í flota sínum næsta sumar en áhrif þessa á flugáætlun og fjárhag félagsins eru óveruleg, að því er segir í tilkynningu frá félaginu.

Boeing-verksmiðjurnar tilkynntu í gær enn frekari seinkun á því að MAX-vélar verksmiðjunnar komist í loftið á ný. Þær voru kyrrsettar snemma í fyrra, allar með tölu, vegna framleiðslugalla sem kostaði á fjórða hundrað mannslífa í tveimur flugslysum.

Icelandair hafði pantað 16 slíkar vélar og tekið þrjár þeirra í notkun þegar þetta gerðist og olli kyrrsetningin verulegri röskun á flugáætlun félagsins í fyrra og fjárhagslegu tjóni um leið.

Óveruleg áhrif í ár

Í tilkynningu sem félagið sendi frá sér seint í gærkvöld segir að þar á bæ sé ekki gert ráð fyrir að MAX-vélum verði flogið í leiðakerfi félagsins á háannatíma sumarsins framundan. Vegna ráðstafana sem félagið hafi þegar gripið til verði áhrif þessa á útgefna flugáætlun félagsins óveruleg og fjárhagsleg áhrif mun minni en í fyrra.  

Búið er að leigja inn þrjár Boeing 737-800 vélar á mun hagstæðari kjörum en í fyrra og ákveðnum fjölda Boeing 757 véla verður haldið lengur í flota félagsins en áður hafði verið gert ráð fyrir. Þá munu áhafnir Icelandair fljúga leiguvélunum en ekki áhafnir leiguflugfélaga sem leigðar voru inn með skömmum fyrirvara árið 2019. 

Reikna með minnst jafnmörgum farþegum og í fyrra

Í tilkynningu félagsins kemur líka fram að það geri ráð fyrir að flytja að lágmarki jafnmarga farþega til Íslands á árinu 2020 og árið 2019.

Loks segir að Icelandair Group og Boeing hafi tvívegis gert bráðabirgðasamkomulag um skaðabætur og að viðræður um frekari skaðabætur standi yfir enda stefni Icelandair Group að því að fá allt tjón vegna MAX kyrrsetningarinnar bætt.