Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Icelandair minnkar flugframboð í sumar

16.03.2020 - 01:29
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Icelandair hefur dregið úr flugframboði um allt að þrjátíu prósent vegna COVID-19, og líklegt er að dregið verði enn frekar úr framboði á meðan ferðatakmarkanir eru í gildi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandair í kvöld.

Óvissa ríkir um háannatíma sumarsins, en félagið gerir ráð fyrir að draga úr flugframboði um að minnsta kosti fjórðung miðað við það sem áður var kynnt. Þá segir að fjárhagsleg áhrif kórónaveirunnar á starfsemi Icelandair séu enn óviss. Útbreiðsla hennar á eftir að hafa neikvæð áhrif á sjóðstreymi Icelandair Group en unnið er að því að lágmarka þau áhrif. Verður það gert með því að draga úr flugframboði og vinna með stéttarfélögum að því að lækka launakostnað. Lausafjárstaða félagsins er á svipuðum stað í dag og hún var um áramótin, um 39 milljarðar króna.