Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Icelandair fellir niður 22 ferðir vegna óveðursins

12.02.2020 - 18:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Icelandair hefur ákveðið að fella niður 22 ferðir til og frá Evrópu vegna óveðursins sem á að ganga yfir landið á föstudag. Átta nýjum ferðum hefur verið bætt við á morgun, fimmtudag. Ameríkuflugið og flug til Kanada er áætlun, eins og staðan er núna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Þessi mikla röskun hefur áhrif á þúsundir farþega en 8.000 farþegar áttu bókað flug með Icelandair á föstudag. 1.500 hafa þegið boð um flýta og breyta flugi vegna óveðursins. „Farþegar hafa nú þegar verið upplýstir um niðurfellingu flugs á föstudaginn. Unnið er að því að endurbóka farþega á ný flug – hluta farþega á morgun fimmtudag og svo í önnur flug á næstu dögum,“ segir í tilkynningu frá Icelandair.

Eftirfarandi ferðum hefur verið aflýst á föstudag:
FI532/533 til og frá Munchen
FI520/521 til og frá Frankfurt
FI342/343 til og frá Helsinki
FI306/307 til og frá Stokkhólmi
FI500/501 til og frá Amsterdam
FI528/529 til og frá Berlín
FI204/205 til og frá Kaupmannahöfn
FI416/417 til og frá Dublin
FI544/545 til og frá París CDG
FI318/319 til og frá Osló
FI430/431 til og frá Glasgow

Spá er vonskuveðri á föstudag og hefur Veðurstofan hækkað viðvörunarstig vegna óveðursins úr gulu í appelsínugult. Flest bendir til þess að veðrið verði verra en búist var við.

Veðrið gengur fyrst inn á sunnanvert svæðið, Reykjanes og höfuðborgarsvæðið en versnar mikið í Borgarfirði, Á Mýrum og sunnanverðu Snæfellsnesi fyrir hádegi. Miklar samgöngutruflanir eru líklegar. Víða spáir talsverðri eða mikilli snjókomu með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Þá má búast við að flug liggi niðri og að vegum verði lokað. Ferðalangar þurfa að endurskoða ferðaplön og fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast vel með veðurspám sem geti breyst frá degi til dags

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV