Icelandair ekki bótaskylt vegna bilunar í tveimur vélum

09.01.2020 - 22:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jón Þór Víglundsson - RÚV
Icelandair er ekki bótaskylt eftir að flugfélagið þurfti að aflýsa tveimur ferðum vegna bilunar sem urðu í vélum félagsins í apríl á síðasta ári og í júlí árið 2018. Þetta er niðurstaða Samgöngustofu. Farþegarnir sem kvörtuðu töldu að bilanirnar flokkuðust ekki undir óviðráðanlegar aðstæður og því ættu þeir rétt á skaðabótum.

Í öðru atvikinu var vél Icelandair á leið til Bergen en hitt flugið var til Stokkhólms.  Í báðum tilvikum kom vélarbilun í ljós stuttu eftir flugtak og töldu áhafnirnar nauðsynlegt að snúa vélunum til baka til Keflavíkur. 

Icelandair sagði í bréfi til Samgöngustofu að ákvarðanirnar hefðu verið teknar í öryggisskyni og að slíkar ákvarðanir féllu undir óviðráðanlegar aðstæður. 

Farþeginn á leið til Stokkhólms sagði að Icelandair hefði getað komið í veg fyrir að fluginu var aflýst. Félagið hefði til að mynda getað verið með aðra vél til taks. Hann benti jafnframt á að hann hefði ekki komist til Stokkhólms fyrr en tæpum sólarhring eftir áætlaðan komutíma.

Á þetta féllst Samgöngustofa ekki. Icelandair hefði lagt fram gögn sem sýndu fram á að ákvörðun áhafnarinnar um að snúa aftur mætti rekja til flugöryggis. Því hafi verið þetta verið óviðráðanlegar aðstæður. Var kröfum farþeganna um skaðabætur því hafnað.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV