Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Icelandair auglýsir fólk í hættu í Reynisfjöru

03.03.2016 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - Instagram
„Par fylgist með sólarupprás í Reynisfjöru.“ Þannig hljómar textinn sem fylgir mynd, sem flugfélagið Icelandair deilir á Instagram síðu sinni og merkir með myllumerkinu #mystopover, sem er hluti af nýrri auglýsingaherferð fyrirtækisins. Nýlega varð banaslys á þeim stað sem parið stendur á í Reynisfjöru og ný viðvörunarskilti hafa verið sett upp, til að vara við þeirri hættu sem felst í að fara svo langt niður í flæðarmálið eins og sést á myndinni.

Icelandair hefur þann háttinn á, að á Instagram síðunni deilir flugfélagið myndum sem almenningur tekur á Íslandi. Þessi mynd er tekin af Svíanum Christoffer Collinn, sem deildi henni á sinni Instagram síðu fyrir viku síðan.

Þá var aðeins um hálfur mánuðir liðinn frá því að erlendur ferðamaður lést, eftir að hafa dottið í fjörunni og farið út með öldunni. Þar áður hafði mikið verið fjallað um hættuna í Reynisfjöru, en í kjölfar banaslyssins var lögregla með vakt á svæðinu í tvær vikur. 

Erfitt að auglýsa ekki Reynisfjöru

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair segir að það sé erfitt að auglýsa ekki helstu ferðamannastaði landsins, vegna slysa sem þar hafi orðið.

„Þannig að það er kannski ekki raunhæft að hætta að sýna staði þar sem slys verða, en það er sjálfsagt að sýna nærgætni og virðingu og í þessu tilviki þá má alveg færa rök fyrir því að það hefði verið smekklegt að vera ekki með þessa mynd og ég hef beðið um að hún verði tekin út, og sjálfsagt að sýna þá nærgætni,“ segir Guðjón. Myndin, sem var sett inn í gær, miðvikudaginn 2. mars, var fjarlægð skömmu eftir að fréttamaður náði fyrst tali af Guðjóni í dag, fimmtudag.

Leggja áherslu á öryggi

Hann segir að flugfélagið geri sitt besta til að vekja athygli á því að ferðamenn gæti öryggis á ferðalagi um landið.

„Já, við gerum það. Við erum aðilar að SafeTravel og drögum verulega athygli að því um borð í vélunum okkar. Við vinnum með Landsbjörgu og í þessu nýja átaki Inspired by Iceland sem snýst um öryggi ferðamanna, þannig að við leggjum áherslu á það,“ segir Guðjón.

Nokkrir vara við í athugasemdum

Flestir þeirra sem setja athugasemd við myndina lýsa því hve mikið þá langar að fara á þennan stað, eða að það hafi komið þangað. Þrír lýsa því þó að það geti verið hættulegt að fara niður í flæðarmálið. Einn segir frá því að hann hafi verið aðvaraður af Íslendingi við því að bera ekki virðingu fyrir öldunum. Þær geti komið skyndilega og hrifsað fólk með sér.

Íslenskur notandi segir að það sé ábyrgðarlaust af flugfélaginu að birta slíka mynd, og varar við því að fara niður að flæðarmálinu. 

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - Instagram
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - Instagram
Athugasemdir við mynd Icelandair af Reynisfjöru á Instagram