Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

ÍBV er bikarmeistari kvenna í knattspyrnu

Mynd: Hjalti  / RÚV

ÍBV er bikarmeistari kvenna í knattspyrnu

09.09.2017 - 19:35
ÍBV vann Stjörnuna í hreint út sagt ótrúlegum leik í Laugardalnum í dag. ÍBV jafnaði metin undir lok venjulegs leiktíma og kom leiknum í framlengingu. Það var svo Sigríður Lára Garðarsdóttir sem tryggði sigur ÍBV með marki af vítapunktinum þegar níu mínútur voru eftir af framlengingunni.

Bæði lið lentu í töluverðu basli í undanúrslitum en Stjarnan vann Val í framlengdum leik og ÍBV þurfti vítaspyrnukeppni gegn Grindavik til að bóka sæti sitt í úrslitaleiknum. Það mátti því búast við dramatík í dag og varð það raunin.

Byrjunarlið Stjörnunnar: Gemma Fay (markvörður), Ana Victoria Cate, Kim Dolstra, Lorina White, Lára Kristín Pedersen, Guðmunda Brynja Óladóttir, Kristrún Kristjánsdóttir, Anna María Baldursdóttir, Agla María Albertsdóttir, Harpa Þorsteinsdóttir og Katrín Ásbjörnsdóttir (fyrirliði).

Byrjunarlið ÍBV: Adelaide Anne Gay (markvörður), Sóley Guðmundsdóttir (fyrirliði), Caroline Van Slambruck, Sesselja Líf Valgeirsdóttir, Rut Kristjánsdóttir, Sigríður Lára Garðarsdóttir, Kristín Erna Sigurlásdóttir, Adrienne Jordan, Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir, Cloé Lacasse og Katie Kraeutner.

Frábær byrjun ÍBV

Það tók ÍBV aðeins fjórar mínútur að komast yfir. Gemma Fay, markvörður Stjörnunnar, kom út úr teignum til að hreinsa upp stungusendingu, Gemma náði því náði og gaf knöttinn á Kristrúnu Kristjánsdóttur sem var undir mikilli pressu. Kristrún átti þá slaka sendingu til baka á Gemmu sem Cloé Lacasse komst inn í. Lacasse fór framhjá Gemmu og skoraði úr mjög þröngu færi. Vel gert hjá Lacasse en varnarleikur Stjörnunnar var ekki til útflutnings.

Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Marian Kolodziejski - RÚV

Markamínútan skilaði sínu

Stjarnan tók hægt og rólega völdin á vellinum eftir að hafa lent undir. Það var svo á 41. mínútu sem þær loks jöfnuðu metin. Þar var að verki hin unga Agla María Albertsdóttir en hún skoraði eftir frábæran undirbúning Hörpu Þorsteinsdóttur.

Það var svo Harpa sjálf sem kom Stjörnunni yfir tveimur mínútum síðar. Harpa fékk sendingu frá Guðmundu Brynju, hélt Caroline frá knettinum og skoraði af öryggi framhjá Adelaide Anne Gay í marki ÍBV. Staðan því óvænt orðin 2-1 fyrir Stjörnunni þegar liðin gengu til búningsherbergja en lengi vel leit út fyrir að þeim myndi ekki takast að finna glufur á vörn ÍBV.

ÍBV neitaði að gefast upp

Í síðari hálfleik fékk Stjarnan tækifæri til að gera út um leikinn en Adelaide Anne Gay átti nokkrar stórbrotnar markvörslur og hélt ÍBV inn í leiknum. Þær vörslur reyndust mikilvægar þar sem ÍBV jafnaði metin á 89. mínútu. Þá átti Sóley Guðmundsdóttir háa sendingu inn á vítateig Stjörnunnar.

Knötturinn endar hjá Lacasse vinstra megin í teignum sem hamrar knettinum fyrir markið og Kristín Erna Sigurlásdóttir fær hann nánast í sig og þaðan í netið. Staðan því orðin 2-2 og aðeins uppbótartíminn eftir. Hvorugu liði tókst að skora áður en dómari leiksins flautaði og því þurfti að fara í framlengingu.

Það má setja spurningamerki við Gemmu Fay í marki Stjörnunnar í þessu marki en hún leit ekki vel út í mörkum ÍBV í leiknum.

Dramatík í lokin

Það voru aðeins átta mínútur eftir þegar það var dæmt vítaspyrna á Stjörnuna. Cloé Lacasse fór þá niður í teignum en vítaspyrna virtist mjög harður dómur. Sigríður Lára Garðarsdóttir fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Staðan 3-2 fyrir ÍBV.

Urðu það lokatölur og því ljóst að ÍBV er tvöfaldur bikarmeistari sumarið 2017 en karlalið félagsins vann einnig bikarkeppni KSÍ á dögunum.

Viðtöl eftir leik

Harpa skoraði fyrir norðan í dag. - Mynd: RÚV / RÚV

Harpa Þorsteinsdóttir vill meina að einbeitingarleysi hafi kosað Stjörnuna í dag. Viðtalið í heild sinni sjá í spilaranum hér að ofan.

Sigríður Lára kom ÍBV á bragðið í dag. - Mynd: RÚV / RÚV

Sigríður Lára skoraði sigurmark leiksins og hún viðurkenndi að það hafi komið smá stress áður en hún tók spyrnuna. „Það kom smá stress en ég hugsaði bara ég ætla að skora, ég ætla að skora!“ 

Áður en henni var sleppt úr viðtali fékk hún viðeigandi vatnsgusu frá samherjum sínum áður en hún gaf það út hvað það væri ótrúlega gaman að vera í ÍBV.

Viðtalið við Sigríði Láru í heild sinni má sjá hér að ofan og hér að neðan má sjá viðtal við mjög svo glaðan þjálfa ÍBV, Ian Jeffs.

Mynd: RÚV / RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Kolodziejski - RÚV