Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Íbúum Hríseyjar fækkar ört

31.05.2017 - 10:03
Mynd með færslu
 Mynd: visitakureyri.is - Akureyri
Íbúafjöldi Hríseyjar fer í fyrsta sinn undir 100 í sumar, þegar þrjár fjölskyldur flytja frá eynni. Formaður hverfisráðs Hríseyjar hefur áhyggjur af ástandinu og segir ekki nægilega mikið stutt við atvinnuuppbyggingu. 

„Svakalegur biti“

Vikudagur greindi fyrst frá því að í sumar muni 14 íbúar flytja frá Hrísey, þar af sjö börn og tveir kennarar. Þorgeir Jónsson, formaður hverfisráðs Hríseyjar, segir þetta mikið áfall, en rúmlega 100 manns eru með fasta búsetu í Hrísey. „Þetta er svakalegur biti sem við erum að fá á okkur núna, það verður bara að segjast eins og er, því miður,“ segir Þorgeir. 

Íbúum hefur fækkað hratt síðustu ár og meðalaldur hækkað. Hrísey er hluti af verkefninu Brothættum byggðum sem á að styðja við fámenna staði og stemma stigu við fólksfækkun. „Það er nú gagn af þessu, en ég er nú kröfuharður. Mér finnst að brothættar byggðir, þessi vinna, sé ekki rétt meðhöndluð,“ segir Þorgeir.

Skortir samstarfsvilja

Leggja mætti meiri áherslu á samgöngur og atvinnuuppbyggingu á staðnum, að mati Þorgeirs. Til dæmis hafi lengi verið rætt um að flytja þangað opinber störf frá Akureyri. „Það er búið að tala um þetta síðan áður en við fórum í brothættar byggðir. Við sameininguna var talað um þetta strax, að flytja störf hérna, en það hefur bara ekki verið.“

Hrísey sameinaðist Akureyri árið 2004 en Þorgeir segir skorta samstarfsvilja hjá bæjaryfirvöldum. „Mér finnst alveg vanta að við vinnum saman í þessu. Þetta er stundum eins og maður sé á sér kennitölu hérna.“