Íbúi í Grindavík fann vel fyrir stærðarmun skjálftanna

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Íbúi í Grindavík segir marga í bænum óttaslegna vegna skjálftanna sem riðið hafa yfir í grennd við bæinn undanfarið. Hann fann vel fyrir skjálftunum í kvöld og segir að munurinn á styrk þeirra hafi verið mjög greinilegur.

Ingibergur Þór Jónasson sat í sófanum heima hjá sér í Grindavík í kvöld þegar skjálftarnir riðu yfir. „Maður er búinn að finna muninn á þeim öllum frá því að þetta byrjaði í kvöld,“ segir Ingibergur.

Hann segir að fyrsti skjálftinn hafi minnt á þann sem varð fyrr í vikunni. „Maður fann að hann var svipaður og sá sem ég vaknaði við um miðja nótt um daginn og maður skaut á þrír plús. Svo kom þessi bomba þarna, fjórir komma núll, það var svakalegur munur á þeim, og svo kom hinn enn þá stærri. Og maður heyrir í þeim líka, drunan kemur og svo kemur höggið,“ segir Ingibergur.

Sjá einnig: Skjálfti af stærðinni 3,5 nærri Grindavík

Ingibergur segir að húsmunir hafi titrað í skjálftunum en telur þó ekki að hlutir hafi færst úr stað. Hann segir að þetta veki hann til umhugsunar um hvort að ástæða sé til að taka niður hluti af veggjum sem ekki eru skrúfaðir fastir. „Ég var einmitt að hugsa um það í dag, það eru kannski einhverjir tveir, þrír munir sem að maður ætti að taka af naglanum, annað er bara borað og fest með skrúfum,“ segir Ingibergur. „Ég hef ekki miklar áhyggjur en það eru pottþétt einhverjir hlutir sem að maður ætti að hugsa um að taka niður, ef að þetta er að fara að halda áfram og ef þetta verður eitthvað stærra.“

Almannavarnir brýna fyrir íbúum Grindavíkur að fara yfir heimili og vinnustaði hvað varðar hættu á óstöðugum hlutum, eins og hillum, myndum, vösum og öðru veggskrauti sem getur fallið vegna jarðskjálfta. 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi