Íbúðalánasjóður undirbýr húsnæðistilraunir

25.09.2018 - 09:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson - Íbúðir
Fjölmörg sveitarfélög hafa áhuga á nýju tilraunaverkefni Íbúðalánsjóðs sem miðar að því að hvetja til húsbygginga. Sjóðurinn ætlar að velja að hámarki fjögur sveitarfélög sem verða að hafa tilbúna húsnæðisáætlun. Ef vel tekst til gætu orðið til lausnir sem nýst gætu á öðrum stöðum í framhaldinu.

„Þá erum við fyrst og fremst á horfa á sveitarfélög á landsbyggðinni sem hafa verið að takast á við mikinn skort á íbúðarhúsnæði og jafnvel óvirkan íbúða- og leigumarkað. Þá förum við í að vinna mjög náið með þeim sveitarfélögum í að leita lausna til að bregðast við. Það eru ýmsar lausnir og við erum mikið að horfa til nágrannalandanna okkar og þar á meðal Noregs þar sem svona verkefni hafa farið af stað,“ segir Sigrún Ásta Magnúsdóttir, deildarstjóri á húsnæðissviði Íbúðalánasjóðs. Til greina kemur að styðja við nýbyggingar með styrkjum eða hagstæðari lánum og nýta mögulegt stofnframlag sem er 18% frá Íbúðalánasjóði og 12% frá sveitarfélagi. Stofnframlagið má aðeins nýta í leiguíbúðir fyrir fólk undir ákveðnum tekjum- og eignarmörkum. Þá yrðu jafnvel kannaðir möguleikar á að breyta húsnæði. 

Fljótsdalshérað er eitt þeirra sveitarfélaga sem vilja taka þátt í tilrauninni. Þar var nokkur íbúafjölgun í fyrra og það sem af er ári hefur íbúum fjölgað um 68. Björn Ingimarsson bæjarstjóri segir að barnafjölskyldur hafi verið að flytja til Egilsstaða og þar var deild bætt við leikskólann til að mæta fjölguninni. „Við skynjum það að yngra fólk er að flytja inn á svæðið og vonumst til þess að þetta skili okkur auknu framboði af íbúðarhúsnæði og síðan er þetta líka spurningin um hvort að þetta gæti  styrkt þá varanlegan leigumarkað,“ segir Björn.

Mörg önnur sveitarfélög hafa líst yfir áhuga á að taka þátt og ljóst er að færri komast að en vilja til að byrja með. „Við erum í raun að leita eftir sveitarfélögum sem glíma við ólíkar áskoranir til þess að við getum unnið lausnir sem nýtast á hvað breiðustum grunni og vonir standa til við séum með þessu að móta lausnir sem nýst geta fleiri sveitarfélögum í framtíðinni,“ segir Sigrún Ásta.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi