Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íbúaþróun í Hrísey snúið við

18.11.2019 - 15:03
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV
Hríey - perla Eyjafjarðar, byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða, á að ljúka nú um áramót. Hríseyingar hafa óskað eftir því að verkefnið verði framlengt. Mikill árangur hefur náðst síðustu ár og hefur íbúaþróun í Hrísey verið snúið við.

Hverfisráð Hríseyjar hefur óskað eftir því við Akureyrarbæ að byggðaþróunarverkefnið Brothættar byggðir verði framlengt um að minnsta kosti eitt ár. Verkefninu á að ljúka á þessu ári og telur hverfisráðið að framlenging sé mikilvæg til þess að sú jákvæða breyting sem hafi átt sér stað með verkefninu nái að festa sig betur í sessi. 

Bæjarráð Akureyrar tók vel í erindið og fól bæjarstjóra að vinna málið áfram. Hrísey hefur verið partur af byggðaþróunarverkefninu frá árinu 2015 og margt breyst til hins betra á þeim tíma þótt íbúar hafi gagnrýnt verkefnið til að byrja með

167 manns skráðir í Hrísey

Í fyrsta skipti síðan árið 2015 sýna tölur frá Hagstofunni jákvæða breytingu í íbúafjölda. Árið 2015 voru skráðir íbúar í Hrísey 172, þeim fækkaði og í fyrra voru þeir orðnir 151 talsins. Í ár eru hins vegar 167 skráðir í Hrísey.

Þá hefur atvinnutækifærum fjölgað og á meðal þeirra verkefna sem hafa hlotið styrk er framleiðsla á landnámshænueggjum og vinnsla á hvönn. Þá hefur rekstur Hríseyjarbúðarinnar verið efldur með verkefninu.

Ólafur Búi Ólafsson í hverfisráði Hríseyjar segir íbúa vinna saman að því að efla byggðina og verkefni eins og Brothættar byggðir gefi mikinn drifkraft. Verkefnin séu ólík og styrkirnir misháir en Brothættar byggðir sé gulrót fyrir öll verkefni sem fari af stað. Erfitt sé að fara af stað með hvers konar rekstur í byggð sem þessari.

Sóknarfæri í markaðssetningu Hríseyjar

Nýleg könnun á vegum Akureyrarstofu sýnir að um helmingur landsmanna hefur heimsótt Hrísey um ævina. Af þeim hafa aðeins 17% heimsótt eyjuna á síðustu fimm árum. Algengasta ástæða þessa að fólk hefur ekki heimsótt eyjuna er sú að fólk veit ekki hvað er þangað að sækja. Að setja aukinn kraft í markaðssetningu Hríseyjar gæti því elft ferðaþjónustu og styrkt búsetu í eyjunni í leiðinni.