Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Íbúar við Ásholt ósáttir við framkvæmdir

07.01.2014 - 23:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Íbúi við Ásholt í Reykjavík ætlar í hart ef heimilað verður að reisa byggingar fyrir leiguíbúðir í næstu götu. Reykjavíkurborg ætlar að láta byggja 2500-3000 nýjar leiguíbúðir í Reykjavík á næstu árum.

Í Brautarholtinu í Reykjavík, rétt ofan við Ásholt, er nú bílastæði. Þarna stendur til að reisa byggingu sem íbúar Ásholts óttast að rýri verðgildi húsa í hverfinu. „Hér eru brotin mannréttindi á öllum íbúum hérna. Hér fer borgarstjórn offari í því að úthluta Félagsstofnun stúdenta hús fyrir 97-98 íbúðir, rétt ofan í Ásholtinu,“ segir Símon S. Wiium, íbúi við Ásholt. Hann segir mikla skuggamyndun verða af húsunum. 

Íbúar hafa einnig áhyggjur af þrengslum og skorti á bílastæðum. Helsta ágreiningsefnið er bílastæðafjöldi í hverfiniu. Þar stendur til að byggja 100 íbúðir en bílastæði verða 20. Þá rísa 139 íbúðir á svæðinu en þar er ekki gert ráð fyrir gestastæðum.

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, segist skilja áhyggjur íbúa. „En leynum því ekki að við ætlum okkur að byggja 2.500-3.000 nýjar leiguíbúðir á næstu árum. Það verður á þéttingasvæðum og það er stundum umdeilt.“

Gagnrýnendur spyrja: Gerir borgarstjórn ráð fyrir því að íbúarnir verði ekki á bíl? „Sumir þeirra munu nota strætó, aðrir verða á bíl. Upphaflegu tillögurnar voru með ennþá færri bílastæðum en við komum svo til móts við þær raddir.“

Dagur segir gert ráð fyrir að fólk taki strætó. „Já, rétt hjá Hlemmi, teljum við að ungt fólk, námsmenn, muni nýta sér strætó. Og það er margt sem bendir til að það gangi eftir.“

Íbúar hafa frest til 20. janúar til að skila inn athugasemdum. Verði þá gefin út heimild til framkvæmda ætla íbúar í hart. „Við munum ekki líða þetta. Þótt málið fari lengra á okkar kostnað þá verður það gert,“ segir Símon.