Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Íbúar uggandi vegna mengunarhættu

22.09.2011 - 21:55
Breyta þarf aðalskipulagi ef reisa á natríumklóratverksmiðju í Hvalfirði. Skipulagsstofnun telur ekki þörf á umhverfismati en sveitarfélagið getur þó krafist þess.

Finnska fyrirtækið Kemíra vill reisa natríumklóratverksmiðju á Grundartanga við Hvalfjörð. Natríumklórat er notað við pappírsframleiðslu. Ýmis hættuleg eða eitruð efni og þungmálmar eru notuð eða verða til við framleiðsluna.

Sveitarstjórnin í Hvalfjarðarsveit hefur haft áhyggjur af hugsanlegri díoxínmengun og vill því skoða rækilega hvort þörf sé á umhverfismati. Nú hefur hins vegar Skipulagsstofnun úrskurðað að það sé óþarft.

Hins vegar þurfi að breyta aðalskipulagi og þar kemur til kasta sveitarfélagsins sem mun fara rækilega yfir málið segir Sigurður Sverrisson oddviti. Það getur líka að eigin frumkvæði ákveðið að gera skuli umhverfismat.

Ragnheiður Þorgrímsdóttir býr á Kúludalsá, sem er í nágrenni verksmiðusvæðisins á Grundartanga. Þessi forystumaður í umhverfismálum við Hvalfjörð vill umhverfismat hvað sem niðurstöðu Skipulagsstofnunnar líður. „Umhverfi í grennd við Grundartanga hefur ekki verið mælt almennilega. Mælingarnar hafa farið fram á ábyrgð iðjuveranna og þær eru ekki hafnar yfir vafa,“ sagði Ragnheiður í viðtali við fréttastofu RÚV í kvöld. „Þarna er alltaf verið að bæta við nýjum og nýjum verksmiðjum á þeim forsendum að þær mengi bara lítið miðað við þá mengun sem fyrir er. Það eru bara ekkert boðleg rök.“