Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Íbúar Þorlákshafnar slegnir yfir kvótasölu

26.07.2016 - 22:31
Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Christopher Lund - Hafnarstjórn Þorlákshöfn
Framkvæmdstjóri Hafnarness í Þorlákshöfn segir að selja hafi þurft kvótann úr þorpinu til að greiða upp skuldir við viðskiptabankann. Þær skuldir hafi orðið til við kvótakaup og hafi aukist mjög í hruninu. Íbúar Þorlákshafnar eru slegnir yfir tíðindunum.

HB Grandi sendi frá sér fréttatilkynningu um viðskiptin í dag. Forráðamenn Hafnarness segja að salan á kvótanum hafi verið nauðsynleg vegna skulda fyrirtækisins við viðskiptabanka þess. Hafnarnes gerir út þrjá báta, rekur saltfiskvinnslu og frystihús í Þorlákshöfn og þar starfa um 60 manns að jafnaði.

Framkvæmdastjóri Hafnarness segja að reynt hafi verið að selja kvótann félagi sem vildi halda honum í sveitarfélaginu. „Og það voru viðræður við þá sem eru hérna á staðnum en því miður náðist samkomulag ekki,“ segir Ólafur Hannesson, framkvæmdastjóri Hafnarness. 

Þorlákshafnarbúar voru slegnir yfir fréttum af kvótasölunni. „Alveg skelfilegt. það er alveg hræðilegt, það er nýbúið að selja annað fyrirtæki með öðrum eins kvóta. Það er engin atvinna hérna og verður ekki,“ segir Einar Sigurðsson, fyrrverandi starfsmaður Hafnarness. 

Inga Þorbjörnsdóttir, íbúi í Þorlákshöfn, var einnig slegin. „Ég var bara að heyra þetta áðan og ef sá er þá er þetta bara mjög slæmt fyrir bæjarfélagið,“ segir Inga og undir það tekur Gyða Steina Þorsteinsdóttir: „Já, ég var bara að heyra þetta núna, ég hafði ekki hugmynd um þetta.“

Gústaf Tryggvason, íbúi í Þorlákshöfn, segir að Hafnarnes skipti miklu fyrir þorpið. „Já, auðvitað. Þetta er nú ekki það svo stórt samfélag að það munar um hvern vinnuveitanda. Ef þú tekur stóran part burtu þá minnkar eitthvað. Þetta endar náttúrulega sem svefnbær með þessu áframhaldi,“ segir Gústaf.

Einar segir að kvótinn sem hafi nú verið seldur HB Granda sé allur kvótinn sem Hafnarnes hafi átt: „fyrir utan humar.“

Hafnarnes hefur einnig unnið sæbjúgu. Þá hefur fyrirtækið samið við HB Granda um að leiga hluta af kvótanum áfram svo unnt sé að halda óbreyttri starfsemi í Þorlákshöfn út árið. Ekki verði uppsagnir að svo stöddu.

„En það heldur ekki öllu þessu fólki í vinnu og allur þessi kvóti farinn, og hvað á að gera við bátana?,“ spyr Einar. 

Ólafur segir að reynt verði að finna meira hráefni til að vinna. „Og vonandi að ná að halda sem flestum í vinnu áfram, það er það sem er okkar hjartans mál í þessu, að halda fólki í vinnu,“ segir Ólafur. Skuldir Hafnarness hafi orðið til vegna kvótakaupa. „Það voru keyptar aflaheimildir 2006 til þess að halda þeim í þorpinu,“ segir Ólafur.

En hvernig gátu skuldirnar orðið svo miklar að þetta var eina leiðin? „Ja, það er hið svokallaða hrun eins og sagt var. Það var hjá okkur eins og hjá öðrum fyrirtækjum og heimilum í landinu. Þá jukust okkar skuldir umtalsvert, þær tvöfölduðust og á sama tíma þá lækkaði hráefnisverð talsvert,“ segir Ólafur.