Íbúar samþykktu hugmynd um eftirlitsmyndavélar

08.02.2018 - 15:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Eftirlitsmyndavélar í Lindahverfi fyrir tíu milljónir eru meðal þess sem íbúar í Kópavogi völdu í kosningum um ýmsar hugmyndir íbúa á vef bæjarfélagsins. Aðrar hugmyndir sem íbúar kusu og verða því að veruleika eru rathlaupabraut í Fossvogi, bætt öryggi og aðkoma að Kópavogslaug, gróðursetning á eplatrjám og berjarunnum á opnum svæðum á Digranesi og fimmhyrningsrólur við Hörðuvallaskóla í Vatnsendahverfi.

Fréttastofa greindi frá því á dögunum að innbrotum á heimili í Kópavogi hafi fjölgað síðustu tvo mánuði. Frá 1. desember til 29. janúar var tilkynnt um 19 innbrot á heimili í Kópavogi. Til samanburðar var að meðaltali tilkynnt um þrjú innbrot á mánuði þar síðustu þrjú ár.

Eftirlitsmyndavélum, eins og þeim sem á að koma upp í Lindahverfi, hefur verið komið upp á Seltjarnarnesi og í Hveragerði. Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, sagði í samtali við fréttastofu á dögunum að ef eftirlitsmyndavélarnar gefi góða raun í Lindahverfi sé líklegt að slíkum vélum verði komið upp víðar í Kópavogi. Hugmyndin er að myndavélunum verði komið upp við gatnamót inn í hverfið. Þegar eitthvað kemur upp á í hverfinu geti lögregla nýtt upptökur úr vélunum við rannsókn mála.

Góð þátttaka var í kosningum um hugmyndir íbúa í Kópavogi, að því er fram kemur í tilkynningu frá Kópavogsbæ. 18 prósent íbúa, 16 ára og eldri, tóku þátt. Það er aukning um 43 prósent síðan slíkar kosningar voru síðast haldnar í Kópavogi. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi