Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Í uppgjöfinni felst mesti sigurinn

Mynd: Paunkholm / Paunkholm

Í uppgjöfinni felst mesti sigurinn

24.02.2017 - 11:55

Höfundar

Franz Gunnarsson á áratuga reynslu að baki í íslensku tónlistarlífi en stígur hér fram með sólóverk undir nafninu Paunkholm. Platan Kaflaskil er helguð þeim viðsnúningi sem verður í lífi manns er neyslan er kvödd og nýtt og annað líf umfaðmað. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Eins og segir er Franz Gunnarsson eldri en tvævetur í bransanum. Ég man eftir honum fyrst í dauðarokkssveitinni In Memoriam, svo var hann í Quicksand Jesus, Ensími, Dr. Spock, Moody Company og svo má telja. Hér stígur hann hins vegar fram einn, undir listamannsnafninu Paunkholm. Platan er tólf laga og taka þau á einn eða annan hátt á þeim atburði í lífi manns þegar neyslulífið er kvatt og hafist er handa við að takast á við tilveruna edrú. Franz er einn – en þó ekki. Fjöldi valinkunnra hljóðfæraleikara sem og söngvara koma við sögu en þar nýtur Franz liðsinni Kristófers Jenssonar, Tinnu Marínu, Eyþórs Inga Gunnlaugssonar, Ernu Hrannar, Stefáns Jakobssonar, Bryndísar Ásmunds, Magna Ásgeirssonar og Guðfinns Karlssonar auk þess sem hann syngur sjálfur.

Tónninn settur

Það er svo skemmtileg líking með uppsetningu plötunnar og þessu nýja lífi Franz. Þeir sem taka edrúlífið af festu bera á endanum einir ábyrgð á því en um leið er það samhjálpin og samhyggðin sem gerir þeim það kleift. Einn en þó alls ekki. Tónninn er settur með fyrsta lagi, „Einn dag í einu“ og textinn spilar inn á þekkt minni þeirra sem voru í tómu sukki og vitleysu en sinna nú batavinnunni af krafti. Þrátt fyrir að hljómsveit styðji við öll lög er þetta fyrst og síðast höfundaverk, söngvaskáldaplata („singer/songwriter“) eins  og það er kallað. Lagið rúllar höfugt áfram í millitakti, það er enginn flugeldasýning á milli hljóðrása, nei, það er ró og sátt yfir öllu, eitthvað sem endurspeglar ástand höfundar. Lögin eru bæði ný og gömul og smíðarnar misgóðar og eftirtektaverðar, sum þeirra koma og fara á frekar látlausan hátt á meðan önnur skilja meira eftir sig. Hápunktur er „Segðu frá“, melódían þar er sterk, strengir koma smekklega inn og Eyþór Ingi syngur það hreint út sagt frábærlega. Gæsahúðarmyndandi. „Lífsakkeri“ er ekki ósvipað, lítið og fallegt og Tinna Marína gerir vel í söngnum.

Rennsli

Heildarmyndin er þó meira og minna í takt við fyrsta lagið, rennslið er eitthvað svo öruggt og dægiljúft og ég vil túlka það sem einhvers konar tónsetningu á innra lífi höfundar um þessar mundir. Einlægt, látlaust og heiðarlegt verk sem höfundur getur verið stoltur af.

Tengdar fréttir

Tónlist

Paunkholm - Kaflaskil

Tónlist

Ofursvöl áferð og skuggaleg framvinda

Tónlist

Mýkt, melódíur og einlægur flutningur

Tónlist

Bæði hressandi og hjartatosandi