Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Í sjálfsvald sett hvort þeir vinni yfirvinnu

09.06.2016 - 11:59
Flugumferðarstjóri á vakt í flugturni
 Mynd: RÚV
Félag íslenskra flugumferðarstjóra lýsir yfir miklum vonbrigðum með inngrip stjórnvalda í kjaradeilur félagsins við Isavia. Þetta kemur fram í ályktun félagsfundar FÍF sem haldin var í gær.

Ríkisstjórn Íslands samþykkti í gær á neyðarfundi að gefa deiluaðilum frest til 24. júní til að ná samningum, ella verði skipaður gerðardómur til að úrskurða um laun flugumferðarstjóra. Frumvarp innanríkisráðherra felur í sér að flugumferðarstjórar hætti aðgerðum sínum, yfirvinnu- og þjálfunarbanni, strax.

Flugumferðarstjórar benda á að fimmta hver klukkustund hjá þeim sé unnin í yfirvinnu og ástæða þess sé mannekla í stéttinni. Í ályktun segir að flugumferðarstjórar munu sinna öllum lögbundnum skyldum sínum þó hverjum og einum flugumferðarstjóra sé í sjálfsvald sett hvort hann vinni yfirvinnu. 

Yfirvinnubann flugumferðarstjóra hefur raskað flugsamgöngum nokkuð, bæði innanlands- og millilandaflugi, síðustu vikur. Seinkanir flugferða hafa bitnað á um 200 þúsund farþegum.

Í ályktun FÍF kemur fram að flugumferðarstjórar telji að yfirvinnubann hafi verið nauðsynleg aðgerð til þess að ná eyrum og skilningi stjórnvalda og samninganefndar þeirra fyrir hönd Isavia.