Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Í nokkrar nætur var ég alein á öllu hótelinu“

28.03.2020 - 20:01
Mynd: RÚV / RÚV
Vinsælustu ferðamannastaðir landsins eru nánast tómir og eigendur ferðaþjónustufyrirtækja á Suðurlandi segja að tíminn fram undan verði afar erfiður. Rúmlega sjötug kona frá Bandaríkjunum hefur verið eini erlendi ferðamaðurinn á vinsælu hóteli síðustu vikur.

Ferðamönnum á Íslandi hefur hríðfækkað vegna kórónuveirufaraldursins og staða ferðaþjónustunnar, stærstu atvinnugreinar landsins, hefur gjörbreyst á örfáum vikum. Mikil óvissa blasir við í ferðaþjónustu, ekki síst á Suðurlandi. 

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar, sem er með COVID-19 sjúkdóminn, segir stöðuna í sveitarfélaginu erfiða. Aðgerðir verði kynntar í næstu viku.

„Þetta hefur auðvitað heilmikil áhrif hérna í Árborg því við sinnum þjónustu fyrir ferðaþjónustu vítt og breitt um Suðurland. Það eru auðvitað egg í mörgum körfum hérna hjá Árborg en þetta mun vissulega snerta okkur mjög. Við eigum eftir að átta okkur á hvaða áhrif nákvæmlega þetta hefur,“ segir Gísli Halldór.

Í dag sjást varla erlendir ferðamenn á þeim svæðum sem áður voru fjölförnustu ferðamannastaðir landsins. Við Gullfoss voru um tíu manns þegar fréttastofu bar að garði, flestir Íslendingar. Svipaða sögu var að segja við Geysi í Haukadal. Hundruð þúsunda gesta koma á Geysissvæðið á hverju ári, en þessa dagana eru þeir fáir.

„Þetta hefur haft hræðileg áhrif. Þetta er ekki gott og lítur ekkert rosalega vel út. Við erum að fá inn eina, tvær bókanir á dag. Eina, tvær, þrjár einstaka hræður,“ segir Eyrún Aníta Gylfadóttir, markaðsstjóri Hótel Rangá.

„Okkur langar til að reyna að hafa opið, allavega eins lengi og mögulegt er. Við erum náttúrulega með starfsfólk í vinnu. Við erum búin að nýta okkur minnkað starfshlutfall sem ríkið var að bjóða upp á,“ segir Eyrún.

Ein á hótelinu

Katherine Florio, rúmlega sjötug kona frá Nevada í Bandaríkjunum, hefur síðustu vikur verið eini erlendi ferðamaðurinn á Hótel Rangá. Hún ferðast nú ein um Suðurlandið - á bílaleigubíl. Hún segir sérstakt að sjá nánast enga aðra ferðamenn.

„Þetta er stórfurðulegt. Í nokkrar nætur var ég alein á öllu hótelinu og það var skrýtið. Þetta er allt saman mjög skrýtið,“ segir Katherine.

„Það hefði verið mjög flókið að breyta bókuninni af því að í upphafi var ætlunin að fara frá Íslandi 3. apríl en svo sagði mér einhver að vera lengur á Íslandi af því að allt er í rugli í Bandaríkjunum, allar hillur tómar í búðum. Svo ég ákvað að vera til 10. apríl,“ segir hún.

Katherine stefnir þó á að halda heim á leið í lok næstu viku. Vinir og vandamenn hafi hvatt hana til þess vegna óvissu með flug. 

„Ég var mjög hrædd í fyrstu. Ég var með grátstafinn í kverkunum. Vinkona mín sagði mér að drífa mig heim undir eins, að það væri áríðandi af því að til stæði að loka landamærunum líka fyrir bandaríska ríkisborgara en ég kæmist heim núna. En hver veit hvað Trump gerir á morgun? Enginn veit,“ segir Katherine.