Í leit að fullkomnun

01.02.2020 - 07:30
Mynd: EPA-EFE / EPA
Í síðustu viku barst sú harmafregn að Kobe Bryant, einn besti körfuboltamaður allra tíma, hefði farist í hörmulegu þyrluslysi. Fráfall Kobes hefur lamað íþróttaheiminn og allir sem vettlingi geta valdið minnast hans. En Kobe var ekki dæmigerður íþróttamaður. Hann var líka skáld, og óskarsverðlaunahafi, sem var í stöðugri leit að fullkomnun. Sú leit mótaði hann, og rakst Kobe á ófáa veggi á leiðinni. 

„Hataðu mig af öllu hjarta“

Í auglýsingu fyrir Nike, sem er komin nokkuð til ára sinna, sést hvar Kobe Bryant „tekur á því“ í æfingasalnum. Löðursveittur og einbeittur. Undir heyrist hann segja „elskaðu mig eða hataðu mig. Það hefur alltaf verið þannig. Annað hvort af þessu tvennu.“ Hann heldur áfram:

Hataðu það hvernig ég spila, stælana í mér og töffaraskapinn, stökkskotið mittt, hungrið, reynsluna og meistaratitlana.

Af orðum Kobes og svip að dæma, má gera ráð fyrir því að hatrið sé kærleikanum yfirsterkara. Að minnsta kosti að hans mati, það er eins og hann nærist á því. Hataðu mig, segir hann, hataðu mig af öllu hjarta. En af hverju? Af hverjum eigum við að hata þig, kæri Kobe? Jú, vegna þess að í þér birtist okkur lifandi fyrir hugskotssjónum, okkar eigin skortur. Okkar eigin vanmáttur. En sé það ekki nóg til þess að hata þig, þá er bara eitt annað í stöðunni. Að elska þig.

Fyrir nákvæmlega sömu hluti og Kobe telur upp í auglýsingunni hér að ofan var hann elskaður. Elskaður og dáður af milljónum manna út um heim allan. Vegna þess að hann gerði hluti sem við gátum ekki gert. Sem enginn annar gat gert. 

Kobe Bryant lést síðasta sunnudagskvöld í hörmulegu þyrluslysi í Calabasas í Kaliforníu. Með honum í þyrlunni voru átta aðrir, þar á meðal þrettán ára dóttir hans, Gianna. Þau dóu öll. Íþróttaheimurinn syrgir, stjórnmálamenn, tónlistarfólk, leikarar, nefndu það. Við slíka harmafregn er vert að staldra við og spyrja, hvers vegna er Kobe Bryant miðpunktur alheimsins, nú þegar hann hefur skilið við. Hann var ekki venjulegur íþróttamaður, eða venjulegur maður ef út í það er farið. Í linnulausri leit sinni að fullkomnun rakst Kobe Bryant nefnilega á veggi. Og já, hann var sannarlega hataður. En elskaður sömuleiðis. 

Kobe Bryant, maðurinn sem lagði upp í hina vanþakklátu og fánytu leit að fullkomnun í þessum heimi. 

epa08174271 Fans gather around a makeshift memorial at LA Live entertainment complex, across the street from the Staples Center - home of the Los Angeles Lakers - to pay their respects for late former Lakers player Kobe Bryant, in Los Angeles, California, USA, 28 January 2020. According to media reports, former Los Angeles Lakers guard Kobe Bryant died in a helicopter crash in Calabasas, California, USA on 26 January 2020. He was 41. His daughter Gianna, 13, and seven other people also died in the crash.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fyrir utan Staples Center, heimavölll Los Angeles Lakers í vikunni. Fjöldi fólks vottar Kobe virðingu sína.

„Einn allra besti körfubolta- og íþróttamaður seinni tíma“

Kobe Bryant fæddist árið 1978 og var því á fertugasta og öðru aldursári þegar hann lést. Hann ólst upp á Ítalíu þar sem faðir hans, Joe Bryant, spilaði sem atvinnumaður í körfubolta. Snemma varð ljóst að Kobe væri hæfileikamaður sömuleiðis, og svo fór að árið 1996 varð hann fyrsti bakvörðurinn sem til að verða valinn beint úr menntaskóla í nýliðavali NBA deildarinnar. Charlotte Hornets völdu Kobe, en skiptu honum sama kvöld yfir til Los Angels Lakers. Ákvörðun sem svíður líklega enn. Í Los Angeles spilaði Kobe næstu 20 árin, hvorki meira né minna. 

„Mér finnst það mjög fallegt, að þú sért alltaf í sama liði. Að þú farir aldrei neitt annað og standir með þínu liði á þessu stóra sviði í Los Angeles. Mér finnst það mjög falleg saga,“ segir Svali Björgvinsson, sálfræðingur og einn okkar helsti sérfræðingur um körfubolta. Svali fylgdist með Kobe allt frá dögum hans í Lower Merion High School. Hann hefur lýst hundruðum leikja með Kobe. Og hélt áfram að fylgjast með honum eftir að ferlinum lauk. Honum var sárlega brugðið þegar hann heyrði fréttirnar á sunnudaginn síðastliðinn, um að Kobe Bryant væri dáinn.

Mynd með færslu
 Mynd: ÞÓL - RÚV
Svali Björgvinsson lýsti yfir hundrað leikjum með Kobe Bryant.

Ég deili þeim viðbrögðum með Svala, og kannski þú líka kæri lesandi. Við vissum öll hver Kobe var, þótt við fylgdumst kannski ekki öll með körfubolta. Og um feril hans er óþarfi að fjölyrða. Hann varð fimm sinnum NBA meistari, 18 sinnum valinn í stjörnulið deildarinnar, fimmtán sinnum í lið deildarinnar, einu sinni valinn mikilvægasti leikmaður deildarinnar og tvisvar sinnum mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar. Hann er af flestum álitinn einn besti leikmaður sögunnar.

„Hann fór úr því að vera bráðefnilegur og ofsalega óheflaður leikmaður, í að verða einn allra besti körfubolta- og íþróttamaður seinni tíma. Það er bara þannig,“ segir Svali.

Óseðjandi hungur í sigur

Sem fyrr segir var Kobe Bryant enginn venjulegur körfuboltamaður. Hann var einn af þessum örfáu íþróttamönnum sem eru skör ofar en hinir, einn þeirra sem spiluðu á öðru stigi en aðrir. Og ekki aðeins getustigi, heldur líka á hinum stigunum, þessu sálfræðilega, andlega, og jafnvel yfirskilvitlega. Því það var ekki síst andlegi þátturinn sem einkenndi leik Kobes.

„Það sem einkenndi Kobe Bryant öðrum fremur, og það sem margir dáðust að, er þessi ofsalega löngun til að sigra. Hann virðist hafa gert næstum allt og lagt ótrúlega mikið á sig til að sigra. Hann fór lengra en aðrir, bæði í því að æfa sjálfan sig og í því að keyra sjálfan sig í gegnum meiðsli, ítrekað, til að sigra,“ segir Svali.

Í þessu samhengi er vert að nefna að á lokamínútunum í leik á móti Golden State Warriors, sleit Kobe hásin, en átti þó eftir að taka tvö vítaskot. Að slíta hásin er mjög sársaukafullt, þú getur vart gengið. Kobe setti hins vegar vítaskotin tvö niður.

Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum dæmum um hvað Kobe Bryant var tilbúinn að gera til þess að sigra. Og þann 21. janúar, 2006, skoraði hann 81 stig í leik gegn Toronto Raptors. Ég endurtek, 81 stig!

„Ég lýsti þeim leik,“ segir Svali. „Það að skora 81 stig í körfuboltaleik á ekki að vera hægt. Það er ekki hægt! Þetta er næst flesti stigafjöldi í sögu NBA-deildarinnar. Þarna sá ég að við værum að skrifa einhverja goðsögn sem barnabörn barnabarna minna koma til með að tala um. Þetta var þannig leikmaður.“

Í leit að fullkomnun

Hann var vissulega ótrúlega hæfileikaríkur, en það var eitthvað annað þarna, einhver neisti. Einhver glampi í augunum. Hungur, þorsti, skortur. 

Það var engu líkara en Kobe Bryant virðist hafa verið keyrður áfram af því sem stundum er kallað fullkomnunarárátta. En kannski er hægt að orða það öðruvísi, kannski var Kobe Bryant í stöðugri leit að fullkomnun, og allt í hans fasi bar vitni um þá leit. Hann vissi nákvæmlega hvað hann þyrfti að gera til að sigra. Hann þyrfti að vera betri, betri í dag en í gær og enn betri á morgun.

Frá unga aldri er okkur kennt að enginn sé fullkominn. Að allir hafi sína galla, sína lesti, sínar takmarkanir. Þessari fullyrðingu er gjarnan fleygt fram í formi hvatningar; þú ert ekki fullkominn, þú munt gera mistök, alveg eins og við hin. En það er allt í lagi. Það er í sjálfu sér holl áminning, og er hún í þokkabót sönn. Fullkomnun nær ekki utan um hið mennska ástand, því í eðli sínu gerir fullkomnun ráð fyrir því að einhverju sé lokið, að eitthvað sé klárað. Það sé komið til fulls, og geti ekki orðið betra. 

Samkvæmt frummyndakenningu Platóns er fullkomnun til, en ekki í þessum heimi. Til eru frummyndir alls sem er, kærleikans, árangurs, dugnaðar; hið fullkomna ástand þessara þátta. En skynjun mannsins á þessari fullkomnun er brotakennd. Maðurinn er í sífelldri leit að henni, að svörunum. Og með tímanum, getur hann færst nær henni. 

Mynd með færslu
 Mynd: k
Platón og Aristóteles á gangi í Aþenu. Freska eftir Rafael.

„Það eru til sögur af honum þar sem hann er eftir leiki að skjóta og æfa sig, skjóta til þess að reyna að fullkomna eitthvað. Hann var að leita að hinum fullkomna leik. Í þróttum, sem þjálfari og sem leikmaður, ertu alltaf að leita að einhverju sem er ómögulegt, sem er hinn fullkomni leikur. Kobe var stöðugt að leita að því,“ segir Svali.

Í Jakobsbréfi Nýja testamentisins erum við hvött til þess að álíta það hið mesta fagnaðarefni, að rata í ýmis konar raunir. Þolgæðið á að birtast í því sem við gerum, til þess að við séum fullkomin og alger og í engu ábótavant. En rétt eins og Platón vissi að fullkomnun er ekki til í þessum heimi, er höfundi Jakobsbréfs ljóst að eiginleg fullkomnun hér og nú er óraunhæf. Það er hins vegar viðleitnin, streðið, sem skiptir máli. Ferlið, leitin að henni; það er verkefnið. 

Og á þeirri leið rekumst við á veggi. 

Ákærður fyrir nauðgun

Kobe var hreint ekki fullkominn, hvorki sem leikmaður né manneskja. Árið 2003 var Kobe ákærður fyrir að nauðga 19 ára stúlku. Kæran var að endingu dregin til baka og var málið útkljáð utan dómssals. Hann neitaði því að hafa nauðgað stúlkunni, en viðurkenndi að hafa átt við hana samræði. Hann sagðist hafa haldið að það sem hefði gerst hefði verið með hennar vilja, en síðar skilið að svo hafi ekki verið. Á því bæðist hann afsökunar. 

Kobe átti sömuleiðis í erfiðu sambandi við liðsfélaga sína og þjálfara. Fræg er sú rimma sem hann átti við Shaquile O'Neil, besta miðherja deildarinnar og liðsfélaga sinn hjá Lakers. Saman unnu þeir þrjá meistaratitla en það kastaðist í kekki á milli þeirra. Tvö stór egó sem rákust saman; Los Angeles var ekki nógu stór fyrir þá báða og Shaq fór.

epa04467904 Los Angeles Lakers Kobe Bryant stands alone during a break in the action of the Lakers' game against the Houston Rockets in Los Angeles, California, USA, 28 October 2014.  EPA/PAUL BUCK CORBIS OUT
 Mynd: EPA
Kobe var stöðugt að leita að hinum fullkomna leik.

Átti margt sameiginlegt með Jordan

Í þessu samhengi er vert að nefna annan leikmann, Michael nokkurn Jordan, sem er oft nefndur besti körfuboltamaður allra tíma. Jordan vann sex meistaratitla á ferlinum, en Kobe fimm og segir Svali að Kobe hafi sviðið það til síðasta dags, enda voru þeir oft bornir saman og áttu fleira sameiginlegt en að vera góðir í körfubolta.

„Ég held að líkingin við Jordan sé góð. Þeir lögðu báðir mikið á sig, en lögðu einnig alveg ofsalegar kröfur á samherja sýna. Þeir stjórnuðu því hvaða leikmenn voru keyptir, hverjir voru látnir fara, hvaða þjálfarar komu, og svo fram vegis. Allt var þetta þeirra leið til að ná árangri, út frá þeirra metnaði,“ segir Svali.

„Þeir eru báðir fæddir með ótrúlega hæfileika í körfubolta, en lögðu líka mikið á sig til að þroska þá.“ Í leit sinni að fullkomnun , þurftu þeir félagar einmitt að fórna mörgu. Allt þurfti fyrir sigrinum að víkja. 

„Það var þessi ofsalegi sigurvilji sem einkenndi þá. Þeir voru tilbúnir til að fórna öllu, jafnvel vináttu, fyrir það að sigra leiki. Það eru til sögur af því að þeir hafi ekki aðeins verið erfiðir við samherja sína, heldur á köflum alveg hreint óþolandi,“ segir Svali og bætir því við að þær kröfur sem þeir lögðu á samherja sína, hefðu verið kröfur sem ekki hafi verið hægt að standa undir.

Þeir höfðu stjórnlausan metnað fyrir árangri, sem er ofsalega áhugavert út frá þeim fræðum sem ég hef áhuga, sálfræði.

Ekki sjálfgefið að gæfan fylgi utan vallar

Svali nefnir hér sálfræði. Skyldi engan undra að áhugafólk um mannlegt eðli fái vatn í munninn þegar stórmenni á borð við Kobe Bryant, og Michael Jordan eru nefnd á nafn. Það er nefnilega ekki sjálfsagt mál að komast heill í gegnum svona feril. Ekki aðeins líkamlega, heldur einnig andlega. Á hverju kvöldi er barið á þér, á hverju kvöldi einsetja andstæðingar þínir sér það eitt að stöðva þig. Og þú vilt vinna, alltaf. Þú vilt verða fullkominn. Og svo einn daginn, er þetta bara búið. Og hvað gerist þá?

„Þeir þurftu að fórna miklu fyrir þennan árangur. Michael Jordan býr held ég meira og minna í félagslegri einangrun. Ég held að hans líf sé ekki að skemmtilegasta sem til er. Kobe virðist hinsvegar hafa komist nokkuð heill í gegnum þetta. Hann virtist vera ofsalega skynsamur maður í grunnninn,“ segir Svali.

Það er einmitt svo á þeim stutta tíma sem leið frá því að Kobe Bryant lagði skóna á hilluna vorið 2016, og þar til hann lést í síðustu viku, tókst honum að gera hluti sem fáir geta leikið eftir.

Á sinn einstaka hátt kvaddi hann stóra sviðið með ljóði sem hann nefndi Kæri körfubolti. Þar, á hjartnæman hátt, líkir hann sambandi sínu við körfubolta við ástarsamband sem er komið að leiðarlokum.Hann framleiddi teiknaða stuttmynd undir lestri sínum á ljóðinu. Og hún, vann Óskarsverðlaun. Auðvitað.

„Mér fannst hann spila mjög vel úr sínum spilum eftir að hann hætti. Auðvitað er þetta táknrænt, hann hættir með ljóði. Hann gefur út stuttmynd sem margir héldu að myndi ekki ganga, en fékk svo Óskarsverðlaunin. Og það eftir þennan glæsilega feril,“ segir Svali.

Þú uppfylltir Lakers-draum sex ára drengs
Og fyrir það mun ég ávallt unna þér
En ég ekki lengur látið ást mína til þín heltaka mig
Þessi leiktíð er allt sem ég á eftir
Hjarta mitt þolir höggin
Hugur minn stritið
En líkami minn veit að kveðjustundin er runnin upp

Mynd: EPA-EFE / EPA
Eiríkur Guðmundsson les þýðingu Bergsteins Sigurðssonar og Guðrúnar Sóleyjar Gestsdóttur á ljóði Kobes.

Vakti athygli á íþróttum barna og kvenna

Þá var Kobe sömuleiðis ötull baráttumaður fyrir aukinni umfjöllun og umgjörð í kringum íþróttir barna, og kvenna. Dóttir hans, Gianna, sem lést einnig í þyrluslysinu hörmulega, þótti einkar efnileg körfuboltakona og var Kobe duglegur að fylgja henni á æfingar og í leiki.

„Hann hvatti konur í körfubolta til dáða og var orðinn góður talsmaður WNBA, kvennadeildar NBA. Hann talaði með öðrum hætti en menn höfðu áður gert um kvennakörfubolta. Í nýlegu viðtali var hann spurður að því hvort að hann sæi fyrir sér að kona gæti spilað einn daginn í NBA. Hann sagði að ein til tvær gætu gert það nú þegar,“ sagði Svali.

Kannski var Kobe einmitt á réttri leið með að stýra sinni leit að fullkomnun í frjósaman farveg. Í nýlegu viðtali sagði hann frá því hvernig hann kenndi dætrum sínum mikilvægi þess að leggja hart að sér. Í því hefði hann fundið bæði hvatningu og tilgang.

epa08171716 Fans pay their respect at a makeshift memorial in front of a mural by the artists Mr79lts and Muck Rock showing Kobe Bryant and his daughter Gianna Bryant on a wall of the Pickford Market in Los Angeles, California, USA, 27 January 2020. Former US basketball player Kobe Bryant, his daughter Gianna, and seven others have died in a helicopter crash in Calabasas, California, USA on 26 January 2020. He was 41.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Veggmynd af Kobe og dóttur hans Giönnu, sem var kölluð Gigi, fyrir utan Pickford Market í Los Angeles.

„Verum góð hvort við annað“

Kobe Bryant er dáinn og kemur ekki aftur. Ekki heldur dóttir hans, Gianna, sem þótti með eindæmum efnileg í körfubolta. Ekki heldur hinir sjö sem fórust í þyrluslysinu síðasta sunnudag, en minna er talað um. En það sem eftir stendur er arfleifðin. Og þótt það sé kannski ekki viðeigandi að varpa upp slíkum vangaveltum um fólk sem er nýlátið, má velta fyrir sér hvort sviplegur dauði Kobes komi til með að hafa áhrif á arfleifð hans, og hvernig hans verður minnst. 

„Ég held það,“ segir Svali. „Hann fer með svo ofsalega sviplegum hætti. Hann er 41 árs þegar hann deyr í slysi sem er þyngra en tárum tekur. Dóttir hans fer með honum og fleira ungt fólk. Ég held að hann verði núna að enn meiri goðsögn en hann hefði annars orðið."

En hvað allri arfleifð líður, þá stendur eftir sá blákaldi veruleiki að fólk er dáið. Fólk sem einhverjir þekktu persónulega, og elskuðu. Sálfræðingurinn telur að lærdóm sé hægt að draga af sviplegum atburðum sem þessum, sem hafa áhrif á heimsbyggðina alla. 

„Ég vona að þetta fólk sem er að minnast Kobe með fallegum orðum, fólk sem þekkti hann persónulega, hafi sagt þessi orð við hann þegar hann var lifandi og sýnt honum þá væntumþykju og þá ást sem það bar til hans.“

Hatrið vék fyrir kærleika

Og um sjálfan kærleikann, virtist Kobe einnig vita eitt og annað. Í upphafi þessa pistils heyrðum við Kobe Bryant flytja nokkurs konar óð til hatursins. Þar hatrið virðist leika lykilhlutverk í sjálfsmynd afreksmannsins í linnulausu streði hans í átt til fullkomnunar. En batnandi mönnum er best að lifa, segir máltækið, og rétt eins og Kobe virðist hafa spilað ágætlega úr sínum spilum eftir að ferlinum lauk, virtist afstaða hans til fullkomnunar annars vegar, og kærleikans hinsvegar, hafa snúist við. Í áðurnefndu viðtali kemur hann einmitt inn á það að hlutirnir eru aldrei fullkomnir, en í gegnum kærleikann, sem vonar allt og umber allt, geti maðurinn yfirstigið þær hindranir sem verða á vegi hans.  

Kannski er það einmitt í kærleikanum sem við komumst næst fullkomnun. Þeirri fullkomnun sem Kobe leitaði að allan sinn feril. Lærdómurinn er að endingu einfaldur. Legðu hart að þér og gerðu þá kröfu um að aðrir geri slíkt hið sama. Þá gætum við skilið lífsspeki Kobe Bryants þannig að hatrið, þetta óþægilega og erfiða hugtak, sé í raun aðeins táknmynd fyrir þá hvatningu sem maðurinn þarf í baráttunni við eigin takmarkanir. Liðsmaður í baráttunni við lífið sjálft. 

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi