Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Í hálfgerðu stofufangelsi í 30 daga

19.02.2020 - 10:40
Mynd: aðsend mynd / aðsend mynd
Hjónin Snorri Sigurðsson og Kolbrún Anna Örlygsdóttir búa í Peking í Kína og hafa lítið farið að heiman síðustu vikurnar vegna COVID-19 veirunnar sem geisar í landinu. Í Kína er mælst til þess að fólk sé lítið á ferðinni og starfsemi liggur niðri í fjölda fyrirtækja. Snorri vinnur hjá Arla og hefur síðustu vikur unnið að heiman. Hann vonast til að geta mætt á skrifstofuna aftur á mánudag.

„Þetta er búið að vera svolítið súrrealískt. Ég er búinn að vera í 30 daga meira og minna bara heima við, plús mínus nokkra kílómetra í kringum húsið sem við búum í. Öll fyrirtæki af stærri gerðinni hafa verið lokað eða skikkað fólk til að vinna heiman frá,“ sagði Snorri í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

Heilsast ekki lengur með handabandi

Uppruni COVIC-19 veirunnar, sem veldur alvarlegri, bráðri lungnabólgu, er rakinn til borgarinnar Wuhan í Kína og hafa um 75.000 manns veikst á meginlandi Kína. Yfir tvö þúsund manns hafa dáið úr sjúkdómnum. Gripið hefur verið til víðtækra ráðstafana í landinu til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar. Snorri segir að lífið þessa dagana sé svolítið eins og í kvikmyndinni Groundhog Day frá 1993 þar sem sögupersónan upplifði sama daginn aftur og aftur. „Við reynum að gera gott úr þessu. Við reynum að hreyfa okkur og halda okkur við og fara út og það eru allir mjög passasamir, hér heilsast enginn lengur, alla vega ekki með handabandi og það nota allir grímur og passa upp á að sótthreinsa á sér hendurnar þannig að það er svolítið sérstakt að vera í þessari stöðu.“ 

Telur litlar líkur á að smitast í Peking

Snorri segir að almennt óttist fólk ekki að sýkjast af veirunni, heldur treysti því að fari það eftir leiðbeiningum stjórnvalda komist það hjá smiti. Snorri býr í höfuðborginni Peking þar sem íbúafjöldinn er 22 til 23 milljónir. 380 manns í borginni eru smitaðir af COVID-19 og segir Snorri að líkurnar á að hitta einhvern smitaðan og afar litlar. 

Enginn á ferli í borg þar sem milljónir búa

Kínversk stjórnvöld hafa gefið fyrirskipanir um að nær öllum fyrirtækjum sé lokað til að takmarka samneyti fólks. Svo þarf að sækja um leyfi til að fá að opna á ný. Það er langt ferli og þarf að kortleggja allar ferðir starfsmanna áður en gefið er leyfi til að opna á ný. Þetta er gert til að kanna hvort fólk hafi ferðast um þau svæði þar sem smitin eru flest. Snorri segir að fyrir um það bil tveimur vikum hafi nær enginn verið á ferli í höfuðborginni. „Það var mjög skrítið í borg sem er iðandi af mannlífi alla daga. En það er alltaf að aukast að sjá fólk og bíla þannig að þetta er allt að komst í sama gang.“

Mikil áhrif á starfsemi stórfyrirtækja

Matvöruverslanir eru opnar og segir Snorri að þar sé hægt að fá allar helstu nauðsynjar en á tímabili var skortur á andlitsgrímum og handspritti. Veiran og þær ráðstafanir sem henni hafa fylgt hafa haft töluverð áhrif á starfsemi ýmissa stórfyrirtækja því nær öll starfsemi í verksmiðjum í Kína liggur niðri. Apple gaf nýlega út afkomuviðvörun því fyrirtækinu vantar ýmsa hluti sem framleiddir eru í Kína. Suður-kóreski bílaframleiðandinn Hyundai hefur stöðvað alla framleiðslu af sömu ástæðu.

Snorri segir að þessi áhrif séu ekki komin fram í Evrópu þar sem skipasiglingar frá Kína taki átta til tólf vikur. Áhrifin finnist líklega í Evrópu í næsta mánuði. Höggið hefur líka verið mikið fyrir mjólkurframleiðslufyrirtækið Arla í Kína, þar sem Snorri starfar. Þar er þó ekki verið að framleiða heldur vinnur fólk við tölvur og því hefur það getað unnið að heiman. Snorri vonar að hann komist aftur á skrifstofuna næsta mánudag.