Í haldi fyrir árás á konu sem hann reyndi áður að drepa

Mynd með færslu
 Mynd:
Rúmlega þrítugur karlmaður hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til föstudags vegna gruns um líkamsárás, nauðgun, hótanir, milligöngu um vændi, kaup á vændi og mansal. Samkvæmt úrskurðinum beindust öll brotin að sömu konunni. Maðurinn hefur áður hlotið fimm ára fangelsisdóm fyrir tilraun til að drepa konuna og tvo dóma að auki fyrir önnur ofbeldisbrot. Hún lýsti því hjá lögreglu að maðurinn hefði ítrekað ónáðað sig og hótað meðan á afplánuninni stóð.

Hótað barsmíðum ef hún stundaði ekki vændi

Maðurinn var handtekinn undir lok síðasta mánaðar þegar lögregla var kölluð að heimili konunnar. Konan sagði að fyrr um daginn hefði hann látið annan mann til að koma á heimili hennar og hafa við hana samræði gegn greiðslu. Maðurinn hefði svo rifið greiðsluna af henni þegar vændiskaupandinn var farinn og hótað sér barsmíðum ef hún hlýddi ekki. Konan sagði manninn hafa reiðst og gengið í skrokk á sér þegar hún neitaði að taka við öðrum manni síðar sama dag og hafa við hann samræði gegn greiðslu. Hún sagði jafnframt að maðurinn hefði nauðgað sér fyrr um daginn.

Maðurinn neitaði sök og sagði þetta ósatt. Lögregla aflaði gagna af vefnum einkamal.is sem geta samræmst því að vefurinn hafi verið notaður til sölu vændis, eins og konan lýsti. Jafnframt lýsti vitni því að mikið hefði gengið á í íbúðinni, þaðan hefðu heyrst öskur og læti, og svo virst sem maðurinn væri að ganga í skrokk á konunni.

Fé fyrir fíkniefnaneyslu mannsins

Konan sagði við skýrslugjöf á lögreglustöð að maðurinn hefði áreitt hana stöðugt árum saman, meðal annars meðan hann var í fangelsi, og kvaðst vera andlega búin á því. Hún sagði að maðurinn hefði krafist þess að hún stundaði vændi til að fjármagna fíkniefnaneyslu hans. Þennan dag hefði hann hótað henni lífláti ef hún seldi sig ekki aftur sama daginn. Konan sagði jafnframt að maðurinn hefði haft við sig samræði án samþykkis, að hún taldi í meira en hundrað skipti á rúmlega ári.

Maðurinn talinn geta verið lífshættulegur

Lögregla lagði mikla áherslu á að maðurinn yrði úrskurðaður í gæsluvarðhald. Sálfræðingur mat miklar líkur á að maðurinn myndi beita konuna ofbeldi aftur og að töluverðar líkur væru á að hann gæti unnið henni lífshættulegan skaða.

Lögreglan taldið að ofbeldið væri yfirvofandi og líklegt að það myndi eiga sér stað á næstu tveimur til fjórum vikum eftir að manninum yrði sleppt úr gæsluvarðhaldi. Þá var vísað til þess að fíkniefnaneysla mannsins skipti mestu um líkurnar á að hann réðist á konuna, sem og viðkvæm staða konunnar gagnvart manninum. Þá sagði lögregla að telja mætti að maðurinn hefði greiðan aðgang að heimili konunnar.

Leiðrétt 17:31 Í upphaflegri gerð var gæsluvarðhaldsúrskurðurinn sagður gilda til 30. desember en hann gildir til 13. desember.

Konan sagðist óttast manninn og er hrædd um að hann skaði hana eða börn hennar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi