Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Í gæsluvarðhald vegna nauðgunartilrauna

Hæstiréttur Íslands
 Mynd: RÚV
Karlmaður var í gær dæmdur í gæsluvarðhald til 19. janúar næstkomandi. Hann er grunaður um að hafa reynt að nauðga tveimur konum með nokkurra mínútna millibili aðfaranótt sunnudagsins 13. desember. Í bæði skiptin lagði maðurinn á flótta þegar annað fólk bar að.

Maðurinn er grunaður um að hafa ráðist á unga stúlku í Tjarnargötu í Reykjavík um klukkan þrjú aðfaranótt sunnudagsins 13. desember. Hún sagði hann hafa fylgt sér eftir og síðan setið fyrir sér þegar hún hleypti honum fram úr sér. Fólk kom að skömmu eftir að maðurinn réðist á stúlkuna og flýði hann þá af vettvangi.

Fimm mínútum eftir að lögregla fékk tilkynningu um árásina í Tjarnargötu barst tilkynning um aðra árás, að þessu sinni í Þingholtsstræti. Upptökur úr öryggismyndavélum sýndu mann veita stúlku eftirför um miðbæinn og ráðast á hana. Aftur lagði maðurinn á flótta þegar annað fólk bar að.

Gaf sig fram en neitaði sök

Lögregla birti myndir af manninum í fjölmiðlum 16. desember síðastliðinn og barst fjöldi ábendinga í kjölfarið, þar á meðal frá sakborningnum sjálfum og leigubílstjóra sem kvaðst hafa keyrt hann heim nokkru eftir þetta. Sá kvaðst hafa talið að farþegi sinn hefði lent í átökum en vissi ekki meir.

Maðurinn sem var dæmdur í gæsluvarðhald neitar sök en lögregla telur að upptökurnar og föt sem fundust heima hjá manninum sýni fram á að hann sé sá sem réðist á stúlkurnar.

Mjög fólskulegar og hættulegar atlögur

Maðurinn var fyrst úrskurðaður í gæsluvarðhald 18. desember. Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur framlengdi gæsluvarðhaldsúrskurðinn í gær, til 19. janúar, og Hæstiréttur staðfesti hann samdægurs með dómi. Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur segir að um mjög fólskulegar og hættulegar atlögur sé að ræða og að óforsvaranlegt þyki að maðurinn gangi laus meðan rökstuddur grunur leiki á að hann hafi framið svo alvarleg brot. Maðurinn sé að mati lögreglu hættulegur umhverfi sínu og það stríði gegn réttarvitund almennings að maðurinn gangi laus meðan mál hans sé til meðferðar. Rannsókn málsins er á lokastigi.

Allt að sextán ára refsing liggur við brotum sem þessum.

Leiðrétt 10:57 Allt að sextán ára fangelsi liggur við brotunum, ekki tíu eins og sagði í upphaflegri frétt.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV