Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Í forystu fyrir staðgöngumæðrun

19.12.2010 - 17:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Ísland ætti að vera fyrst ríkja á Norðurlöndum til að heimila staðgöngumæðrun. Þetta segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður og flutningsmaður þingsályktunartillögu um staðgöngumæðrun sem nú liggur fyrir Alþingi. Íslendingar hafi áður verið verið í fararbroddi í slíkum úrbótum, til að mynda hvað varði réttindi samkynheigðra. Staðgöngumæðrun er bönnuð með lögum á Íslandi. Litlum dreng, sem staðgöngumóðir fæddi á Indlandi, var í gær veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um staðgöngumæðrun segir að þingið hafi aðeins tekið afstöðu til ríkisborgararéttarins, ekki til annarra þátta.

Ragnheiður Elín hefur, ásamt 17 öðrum þingmönnum, lagt fram þingsályktunartillögu um staðgöngumæðrun og beint því til heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp um staðgöngumæðrun. Ragnheiður segir staðgöngumæðrun algengari en flestir geri sér grein fyrir, það sé staðreynd sem verði að horfast í augu við. Hún vill að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni verði heimiluð hér á landi. Staðgöngumæðrun er bönnuð á Norðurlöndum en er heimil í Bretlandi og Hollandi. Ragnheiður segist bjartsýn á að staðgöngumæðrun verði heimiluð á Íslandi, mælt verði fyrir frumvarpinu á næsta ári og að fyrir því virðist þverpólitísk samstaða. Þörfin sé brýn.