Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Í engum sérstökum félagsskap við Pólverja

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Dómsmálaráðherra lítur ekki svo á að Ísland sé í félagsskap með pólskum stjórnvöldum þótt þau hafi lýst yfir stuðningi við málstað Íslands í Landsréttarmálinu. Stuðningsyfirlýsingin breyti engu um hvernig Ísland reki málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.

Pólsk stjórnvöld óskuðu eftir því að fá að skila skriflegri greinargerð til yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu í tengslum við Landsréttarmálið. Þar er tekið undir málstað Íslands og sagt að Landsréttarmálið skipti gríðarlega miklu máli og tengist breytingum sem Pólverjar hafi gert og vilji gera á dómskerfinu.

Breytir engu hvernig við förum í málið

Þessi stuðningsyfirlýsing Pólverja kann að þykja óheppileg fyrir íslensk stjórnvöld í ljósi þess að pólsk stjórnvöld hafa á undanförnum árum sætt harðri gagnrýni Evrópuríkja fyrir að að grafa undan sjálfstæði dómstóla heima fyrir. Þannig sagði formaður Dómarafélags Íslands í fyrradag að það væri verulegt áhyggjuefni að Ísland væri komið í félagsskap ríkja sem hafa mannréttindi og sjálfstæði dómstóla að engu. Dómsmálaráðherra lítur ekki svo á.

 „Við erum í engum félagsskap með þeim og þó að þeir tjái sig um þetta mál og hafi skoðun á því. Evrópuríki gera það ítrekað varðandi hin ýmsu mál sem eru fyrir mannréttindadómstólnum og er heimilt að gera slíkt við hvaða mál sem er. Þannig að þetta breytir engu því hvernig við förum í málið og við erum í engum sérstökum félagsskap við Pólverja vegna þessa máls,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Skiptar skoðanir um fordæmisgildi

Segir Áslaug að íslensk stjórnvöld hafi ekki vitað af áhuga Pólverja á málinu fyrr en greinargerðin var gerð opinber. Í henni segjast Pólverjar líta svo á að niðurstaða málsins hafi mikið fordæmisgildi og geti haft áhrif á evrópskar reglur um skipun dómara.  „Það hafa auðvitað verið ýmsar skoðanir á því og við höfum talið að þetta mál hafi ekki mikið fordæmisgildi,“ segir ráðherra.

Ríkislögmaður fær aukafjárveitingu

Engu að síður líta íslensk stjórnvöld svo á að Landsréttarmálið sé ekki bara mikilvægt mál fyrir hagsmuni Íslands, heldur sé það mjög mikilvægt fyrir dómaframkvæmd yfirdeildar Mannréttindadómstólsins. Þetta segir í nefndaráliti fjárlaganefndar Alþingis sem hefur ákveðið að embætti ríkislögmanns fái átta milljónir króna vegna Landsréttarmálsins. Málflutningur fer fram í byrjun febrúar og er það mat fjárlaganefndar að vegna mikilvægis málsins sé óhjákvæmilegt að ríkislögmaður njóti liðsinnis stærri lögmannsstofu með reynslu af flutningi mála fyrir efri deild dómsins.