Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Í dag var besti dagur í heimi!“

04.07.2019 - 22:07
Mynd: Fréttir / Fréttir
Zainab Safari, sem að öllu óbreyttu verður vísað úr landi í næstu viku, segist finna fyrir miklum stuðningi á Íslandi sem hún finni hvergi annars staðar. Í krafti mótmæla dagsins hafi henni liðið líkt og hún gæti gert hvað sem er.

Bjuggu á götunni í Grikklandi

Zainab er frá Afganistan. Fjölskylda hennar flúði heimaland sitt og bjó um skeið í Íran. Þaðan gengu þau til Tyrklands í djúpum snjó og sigldu svo með lélegum báti yfir hafið til Grikklands þar sem þau bjuggu á götunni.

Réttindaráð Hagaskóla sendi fyrr í vikunni frá sér áskorun þar sem skorað var á hagsmunasamtök, stofnanir, ráðamenn og almenning að taka afstöðu og mótmæla brottflutningi barna á flótta til Grikklands. Þar er vísað til máls Zainab, sem er nemandi í Hagaskóla. Að öllu óbreyttu verður henni, móður hennar, Shahnaz Safari, og bróður Amir vísað úr landi í næstu viku, til Grikklands. Samkvæmt heimildum fréttastofu verða engar brottvísanir í vikunni. 

Fann fyrir miklum krafti á mótmælunum

Efnt var til mótmæla í dag með yfirskriftinni Við mótmælum brottvísunum barna á flótta. Með mótmælunum vildi fólk sýna afgönskum fjölskyldum, þar meðal fjölskyldu Zainab, samstöðu. Zainab tók sjálf þátt í mótmælum dagsins. Henni leið mjög vel þegar fréttastofa náði tali af henni á mótmælunum í dag. Hún sagðist hafi fundið fyrir miklum krafti í dag og liðið líkt og hún gæti gert hvað sem er. 

„Þegar við heyrðum af því að það ætti að flytja okkur úr landi varð ég mjög leið og ég hélt mig heima. Ég leitaði til sálfræðings því ég var alveg að verða vitlaus -  en í dag var besti dagur í heimi! Hann var mjög góður. Þegar ég hrópaði „stöðvið brottflutninga“ og lít mér að baki fann ég fyrir miklum krafti - ég get gert hvað sem er! 
 

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd

Hefur séð margt þrátt fyrir ungan aldur 

Zainab segist hafa orðið vitni að mörgu á sinni stuttu ævi, sem erfitt sé að gleyma. „Ég var svo lítil. Við komum til Evrópu og ég hef orðið vitni að svo mörgu. Það er svo erfitt fyrir barn að sjá þessa hluti. Ég var bara tíu ára gömul og þetta var svo erfitt . Ég grét þegar við fórum frá Tyrklandi til Grikklands því báturinn var bilaður. Báturinn gekk fyrir rafhlöðu og rafhlaðan hafði klárast og báturinn bilað. Vatn flæddi inn í bátinn. Lítil stúlka grét, það er svo erfitt fyrir mig að gleyma þessu. Ég mun aldrei gleyma þessu.“ 

Nýtur stuðnings hér, en ekki í heimalandi sínu

Hún segist hvergi annars staðar finna fyrir stuðningi og meðbyr líkt og hér á landi. „Hér á Íslandi finn ég fyrir miklum stuðningi, en í Grikklandi - nei. Í Íran var mér strítt því ég var frá Afganistan. Þau stríddu mér því ég var frá öðru landi. Ég myndi aldrei stríða neinum. Mér líkar við alla. Ég sé þau sem systkini mín því við erum öll manneskjur og það skiptir mig engu máli frá hvaða landi þau koma, hvaða tungumál þau tala eða hvert litarhaft þeirra er.“

Á Íslandi eigi hún heima. „Já, öll fjölskylda mín er á Íslandi svo hér vil ég vera.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd