Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Í ástarsambandi við alheiminn

Mynd:  / 

Í ástarsambandi við alheiminn

26.01.2019 - 11:11

Höfundar

Útilistaverk eru ekki rétti vettvangurinn til að gera tilraunir, þau þurfa fyrst og fremst að vera nógu góð til að standast tímans tönnm segir Sigurður Guðmundsson. Sýningin Skúlptúr og nánd var opnuð í Ásmundarsafni á dögunum en þar eru frummyndir að mörgum helstu útilistaverkum Sigurðar samankomin á einn stað.

Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur. Af því tilefni verður lögð áhersla á útilistaverk í Ásmundarsafni á árinu. Sett hefur verið upp sýning á völdum verkum Ásmundar Sveinssonar en samhliða þeirri sýningu fær Listasafn Reykjavíkur til liðs við sig fimm ólíka listamenn sem eiga það sameiginlegt að vinna með útilistaverk. 

Vildi ekki valda listrænu slysi

Fyrstur í röðinni er Sigurður Guðmundsson, einn fremsti listamaður sinnar kynslóðar hér á landi. Sigurður býr í Kína en höggmyndir eftir hann má finna víða í opnu rými ekki bara á Íslandi heldur líka á Norðurlöndum og í Evrópu. Sigurður viðurkennir að hann hafi verið efins um hugmyndina að sýningunni í fyrstu. 

Mynd með færslu
 Mynd:

„Ég hélt að þetta væri ekki hægt og var dálítið nervös, því að maður vill ekki stíga fram í sviðsljósið til að skandalísara eða valda listrænu slysi, það er ekki eftirsóknarvert. En það er ágætisfólk sem vinnur að þessari sýningu og því tókst að gera úr þessu alvöru sýningu með karakter, eða það finnst mér og ég er mjög ánægður. Mannorð mitt mun ekki skaðast. Ég held að ástæðan sé líka sú að öll þessi módel eða frummyndir eru gerðar úr hraunefnum. Þetta eru ekki gifsklumpar heldur nákvæmlega eins og endanlegu verkin nema í annarri stærð.“

Mynd með færslu
 Mynd:

Hann segir allt annað mál að gera útilistaverk en verk fyrir einkasýningar. „Útilistaverk í borgum er mjög vandasamt mál. Opinbert rými fyrir útilistaverk er ekki rétti vettvangurinn til að experímenta með eitthvað nýtt. Það gerirðu bara í vinnustofunni þinni. Samt verður það að vera nýtt en ef þau eldast ekki vel, eru bara einhver dægurfluga en þurfa svo að standa þarna í 150 ár, þá segi ég bara aumingja fólkið sem býr nálægt þessu og þarf að ganga framhjá með hundinn sinn. Svo „they better be good.“ 

Póetík eða dauði

Sigurður segist vera merkingafælinn í list sinni. „Ég forðast skírskotanir í hvaða málefni sem er og pólitískan rétttrúnað. Ég hef ekki áhuga á því fyrir sjálfan mig. Svo verkin eru öll abstrakt tilfinningar sem eru vonandi póetískar. Ef verk mín eru ekki póetísk hafa þau misheppnast. Það er innleggið í það. Ég er í miklu meiri díalóg við það sem við getum kallað lífið, ástarsamband og allt að því kynmök við „the universe“. “

Rætt var við Sigurð í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.

Tengdar fréttir

Myndlist

„Steina hefur haft áhrif á okkur öll“

Myndlist

Vanhugsuð ákvörðun að taka niður nektarlist

Myndlist

Póstprent: heimsend hágæðalist

Bókmenntir

Tabúlarasa - Sigurður Guðmundsson