Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Í ætt við athyglisbrest samtímans

Mynd:  / Facebook/Forlagið

Í ætt við athyglisbrest samtímans

12.12.2017 - 19:20

Höfundar

„Í bókinni er komið inn á mörg umfjöllunarefni sem eru einkar áhugaverð. Það er fjallað um samband mannsins við tæknina og hvernig þetta samband er ekki eins einfalt og saklaust og áður var talið.“ Andri M. Kristjánsson rýnir í Aftur og Aftur eftir Halldór Armand Ásgeirsson.

Andri M. Kristjánsson skrifar:

Bókin Aftur og aftur er þriðja bók Halldórs Armand Ásgeirssonar, áður hefur hann sent frá sér skáldsöguna Drón og nóvelluna Vince Vaughn í skýjunum. Halldór hefur síðustu ár helst vakið athygli fyrir áhugaverða og oft á tíðum góða túlkun sína á samtímanum. Í raun mætti segja að fáir höfundar á Íslandi fjalli með sama hætti um samtímann og Halldór, samband mannsins við tæknina og þá sérstaklega við símann á sér hvergi raunsærri málsvara en í Halldóri Armand. Bókin Aftur og aftur er engin eftirbátur fyrri skáldverka, í bókinni er samtíma tækni, hugsunarháttur og tungumál alsráðandi. Síminn sjálfur er mjög miðlægur í frásögninni allri og dregur athygli lesandans aftur og aftur að sér, líkt og hann gerir í raunveruleikanum.

Mynd með færslu
 Mynd: Forlagið

 

Aftur og aftur fjallar um líf tveggja manna, Arnmundar annars vegar og Stefáns Fals hins vegar. Þeir lifa ólíku lífi en fyrr en varir leiða þeir saman hesta sína í þeim tilgangi að greina og markaðssetja hjarðhegðun manneskjunnar á netinu. Stærstum hluta bókarinnar er miðlað í gegn um sjónarhorn Arnmundar og Stefáns. Sagan hefst þann 11. september 2001 og eru báðar persónur fyrst kynntar til sögunnar á þessum örlagaríka degi þar sem líf þeirra beggja tekur ákveðnum breytingum. Arnmundur eignast sína fyrstu kærustu og sinn fyrsta síma, Stefán hins vegar lendir í bílslysi og verður stúlku að bana. Frásögnin af Stefáni er sögð í 3. persónu, þar sem fortíð Stefáns og hugsunum hans um fjölbreitt líf sitt er miðlað til lesandans. Frásögnin af Stefáni er mun hófstilltari en frásögnin af Arnmundi, enda sögð í 3. persónu og heldur lesandanum í ákveðinni fjarlægð frá Stefáni og gerir hann þannig nokkuð dularfullan. Frásögn Arnmundar er hins vegar sett fram í 1. persónu þar sem óbeisluðum samtímanum er miðlað til lesandans. Arnmundur miðlar sínum hugsunum, upplifunum og skilningi umbúðalaust. Þessi innsýn inn í huga ungs manns er á köflum nokkuð hressandi og leiðir af sér áhugaverðar vangaveltur en oftar en ekki eru hugsanir Arnmundar tilviljunarkenndar, flöktandi og vaða úr einu í annað. Þetta flökt í hugsunum Arnmundar gerir það að verkum að frásögnin verður á köflum orðum aukin og nokkuð yfirborðskennd. Sífelldar áminningar um vörumerki, frægt fólk og módel á samfélagsmiðlum í bland við draumkennt myndmál truflar frásögnina frekar en að ljá henni merkingu eða dýpt. En jafnvel þó svo að það hljómi þversagnakennt þá er vert að nefna að í þessum hugsunum Arnmundar má finna margar af áhugaverðustu vangaveltunum sem koma fram í bókinni.

Í bókinni er komið inn á mörg umfjöllunarefni sem eru einkar áhugaverð. Það er fjallað um samband mannsins við tæknina og hvernig þetta samband er ekki eins einfalt og saklaust og áður var talið. Markaðshyggjan og kapítalisminn sem birtast í bókinni eru ekki ólík viðhorfum stærstu tölvurisa samtímans þ.e. að áhugamál og skoðanir manneskjunnar séu vara sem hægt er að selja. Eins er fjallað mikið um birtingarmynd karlmennskunnar í samtímanum, sem dæmi má nefna þá hugmynd að kynferðislegar hvatir karlmanna í samtímanum séu á einhvern hátt bældar. Í bókinni birtist þessi mynd hvað skýrast í endurtekinni sjálfsfróun Arnmundar í Adidas sokka. Þessi bæling brýst svo aftur upp á yfirborðið í því sem mætti kalla jaðarhegðun á samfélagsmiðlum og stefnumóta smáforritum. Auk þess er hlutverk trúarinnar í samtímanum skoðað í gegnum Stefán, sem óvirkur fíkill hefur hann snúið sér til trúarinnar í leit sinni að stuðningi og stöðugleika. Auk þessara þriggja umfjöllunarefna mætti telja upp mun fleiri áhugaverðar hugmyndir sem birtast í bókinni.

Í Aftur og aftur má finna góða og oft á tíðum hárnákvæma samfélagsrýni sagan sjálf er vel skrifuð og heldur lesandanum einstaklega vel, í frásögninni er ákveðin spenna sem gerir það að verkum að lesandinn á erfitt með að leggja bókina frá sér. Umfjöllunarefni bókarinnar eru fjölbreytt og oft á tíðum mjög áhugaverð. En þessi áhugaverðu umfjöllunarefni sem ættu að vera einn helsti styrkur bókarinnar eru þvert á móti veikasti hlekkur hennar. Þær frjóu og áhugaverðu hugmyndir sem koma fram í sögunni ættu að verða til þess að lesandinn spegli sínar eigin upplifanir í þeim en annað kemur upp úr kafinu, það vantar dýptina í umfjöllunina og lesandinn stendur eftir með lítið sem ekkert fast í hendi. Það er í raun synd því það hefði styrkt bókina til muna.  Á heildina litið er þetta bók sem heldur lesandanum frá upphafi til enda og býður honum upp á margt áhugavert en þegar öllu er á botninn hvolft þá skilur hún ekki mikið eftir sig og ef til vill sver hún sig þannig í ætt við samtímann og samfélagsmiðlana sem hún fjallar um.