Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hyggst tryggja föngum þjónustu innan árs

Mynd með færslu
 Mynd:
Innan árs verður öllum föngum á Íslandi tryggð geðheilbrigðisþjónusta. Að þessu marki stefnir Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. Hún segir að með þessu komi stjórnvöld að fullu til móts við athugasemdir pyntingavarnanefndar Evrópuráðsins og úrbótakröfur Umboðsmanns Alþingis sem í rúm sex ár hefur bent á að sú meðferð sem geðsjúkir fangar sæta hér á landi kunni að brjóta gegn stjórnarskránni og Mannréttindasáttmála Evrópu. 

 

Vita ekki hvers vegna þeir eru í fangelsi

Í lögum um fullnustu refsinga er föngum tryggður réttur til heilbrigðisþjónustu, þeir eiga að njóta samskonar þjónustu og allir aðrir. Þrátt fyrir þetta er enginn geðlæknir starfandi í fangelsum landsins. Þá eru dæmi um að einstaklingar í geðrofsástandi, sem að mati Fangelsismálastofnunar þurfa heilbrigðisþjónustu allan sólarhringinn fái hana ekki, þess í stað eru fangaverðir fengnir til að fylgjast með líðan þeirra og gefa þeim lyf. Samkvæmt lögum er heimilt að láta fanga sem eru alvarlega veikir afplána á heilbrigðisstofnun um stundarsakir eða allan refsitímann. Fangelsisyfirvöld mega ekki vista alvarlega geðsjúkan fanga sem þó eru sakhæfur í hefðbundum fangelsi nema þau tryggi að hann þoli, þrátt fyrir ástand sitt að vera vistaður þar - ef ekki getur það flokkast sem ómannúðleg eða vanvirðandi meðferð. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV

 

Páll Winkel, fangelsismálastjóri, segir að í dag sitji tveir eða þrír fangar með alvarlegan geðrænan vanda í fangelsi. Í hans huga er skýrt að framin hafi verið mannréttindabrot á föngum í þessari stöðu. Í fangelsunum hafi til dæmis verið vistað fólk sem hefur verið svipt sjálfræði. „Stundum skilja þeir ekki hvers vegna þeir eru þarna og það er býsna harkalegt fyrir okkur sem vinnum á sviðinu að horfa upp á það.“

Sitja sumir lengur í fangelsi vegna veikinda

Hann segir skort á geðheilbrigðisþjónustu hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér. „Sem dæmi mætti nefna að einstaklingar sem eru andlega veikir og fá ekki lögbundna þjónustu eru í þannig ástandi jafnvel að þeir teljast ekki hæfir til að fá reynslulausn og sitja þar af leiðandi lengur í fangelsi en aðrir fangar vegna veikinda sinna. Svo má kannski ekki gleyma því að það að vera með mjög veikan fanga í fangelsi getur verið gríðarlegt álag fyrir samfangana og ekki siður fyrir starfsfólkið, mitt starfsfólk er almennt ekki menntað á heilbrigðissviði, fangaverðir hafa ekki þekkingu til að sinna þessum málaflokki þannig að það er gríðarlegt álag sem fylgir því ef þessu fólki er ekki sinnt.“
 
Þessu til viðbótar nefnir hann að þegar menn fá ekki lyf og þjónustu geti þeir verið hættulegir. Fangelsismálastofnun hafi átt í vandræðum með að finna viðeigandi búsetuúrræði fyrir þessa einstaklinga eftir að afplánun lýkur. 
Hann tekur sérstaklega fram að fólk sem glimir við andleg veikindi sé ekki líklegra en annað fólk til að brjóta af sér en segir að alvarleg andleg veikindi, ofbeldishneigð og fíkn geti verið mjög hættuleg blanda. 

Þunglyndiseinkenni mjög algeng

Páll segir að hjá stofnuninni starfi sálfræðingar og félagsráðgjafar sem vinni gott starf. Skjólstæðingahópurinn er stór, margir glíma að sögn páls við þunglyndiseinkenni. „En það þarf að greina á milli þess hvenær menn eru alvarlega veikir eins og í geðrofi og svo þess að vera með  hefðbundin þunglyndiseinkenni sem fylgja innilokun.“

Ítrekað krafist úrbóta

Brýnt að fá svör um úrbætur í málum geðsjúkra fanga. Framkvæmd laga tryggir ekki mannréttindi fanga. Áfram óskað eftir upplýsingu um geðheilbrigðismál fanga. Svona hljóða fyrirsagnir á vef Umboðsmanns Alþingis. Hann gerði athugasemdir við stöðuna árið 2013 í kjölfar frumkvæðisathugunar, þeirri athugun er ekki enn lokið. Síðan 2013 hefur embætti Umboðsmanns Alþingis ítrekað vakið athygli á nauðsyn þess að gera úrbætur á þjónustunni því hún sé líklega ekki í samræmi við mannréttindareglur. Dómsmálaráðuneytið hefur tekið undir áhyggjur Umboðsmanns, um að það geti talist stjórnarskrárbrot að vista fanga með alvarleg geðræn vandamál í afplánunarfangelsi og pyntingarvarnanefnd Evrópuráðsins hefur gert athugasemdir en samt hafa stjórnvöld dregið lappirnar.

Óeining innan stjórnsýslunnar

Það var mat Umboðsmanns, árið 2013 að vandamálið væri tengt því að ekki væri eining innan stjórnsýslunnar um það hver ætti að bera ábyrgð á þjónustunni. Forstöðumaður geðsviðs Landspítala taldi fanga ekki eiga heima á geðdeild og þrátt fyrir samning um að heilbrigðisstofnun Suðurlands sinnti föngum á Litla-Hrauni voru geðlæknar frá Landspítala fengnir til að sinna geðheilbrigðisþjónustu þar, að því er virtist án sérstaks samnings.

Boðaði breytingar í óundirbúnum fyrirspurnatíma

Nýjasta bréf Umboðsmanns Alþingis til stjórnvalda er dagsett 18. þessa mánaðar. Þar er vísað til ummæla sem heilbrigðisráðherra lét falla í óundirbúnum fyrirspurnatíma á þinginu þann 4. mars um að í farvatninu væru aðgerðir til að leysa vandann. Umboðsmaður fór fram á nánari skýringar og afrit af samningsdrögum svo hann gæti glöggvað sig á því hvort þær aðgerðir sem Svandís sagði væntanlegar dygðu til. 

Sjúkrahús í hverju umdæmi veiti þjónustuna

En hvað er það sem Svandís boðar? Í áætlun Svandísar er lagt upp með að sjúkrahús í því heilbrigðisumdæmi sem hvert fangelsi tilheyrir veiti föngum þess geðheilbrigðisþjónustu. „Síðan þarf að meta hvort það sé ástæða til að það sé stuðningur eða hreinlega framkvæmdin sjálf á hendi Landspítalans eða Sjúkrahússins á Akureyri sem eru sérhæfð sjúkrahús,“ segir Svandís.

Þegar þetta liggur fyrir verður Sjúkratryggingum Íslands falið að gera samninga um þjónustuna. En hvenær verða samningarnir undirritaðir? „Núna eru samningsmarkmiðin tilbúin og við gerum ráð fyrir því að þeim verði lokið einum af öðrum. Við erum ekki á byrjunarreit með þessi samskipti við viðkomandi stofnanir. Það eru allir með á nótunum um hvað málið snýst og að þetta er þjónusta sem við verðum að veita.“ 

Fangar njóti áherslubreytinga eins og aðrir

Hún segist í tíð sinni sem heilbrigðisráðherra hafa lagt aukna áherslu á mikilvægi geðheilbrigðisþjónustu, með því að ráða sálfræðinga á heilsugæslustöðvar og fjármagna geðheilbrigðisteymi um allt land og fólk sem búi við frelsisviptingu eigi að njóta þess eins og aðrir. Þá sé mikilvægt að bregðast við athugasemdum Umboðsmanns Alþingis og pyntingarvarnanefnd Evrópuráðsins. 

Hólmsheiði fyrst

Svandís segir að byrjað verði á því að koma geðheilbrigðismálunum í réttan farveg í nýja fangelsinu á Hólmsheiði. Vinnan sé lengst á veg komin þar. 

Stefnt er að því að sérhæft teymi frá geðsviði Landspítala veiti föngum þar geðheilbrigðisþjónustu. Fyrirkomulagið yrði þá þannig að heilsugæslulæknir gæti vísað fanga til þessa sérhæfða teymis sem á að verða mannað geðlækni, geðhjúkrunarfræðingi og sálfræðingi. „ Við hugsum okkur að byrja á Hólmsheiðinni, að þar sé dregin upp fyrirmyndin og í kjölfarið sé það skapalón notað fyrir hin fangelsin. Ég geri ráð fyrir því, miðað við þá áætlun sem hér er lögð fram að þetta verði komið í fullnægjandi horf á öllum þessum stöðum, Sogni, Hólmsheiði, Litla-Hrauni, Akureyri og Kvíabryggju innan árs. Með þessu erum við að gera ráð fyrir því að ábendingum umboðsmanns hafi verið svarað að fullu og það sama gildi um ábendingar pyntingavarnanefndarinnar. Þarna erum við loksins komin með viðeigandi þjónustu, við höfum hana fjármagnaða. Ég gerði grein fyrir því nú á dögunum hvernig ráðstafað væri 630 milljónum til geðteyma út um allt land og þá var haldið sérstaklega eftir 30 milljónum að auki inn í þessi teymi sem sinna fangelsum landsins og auk þess eru eyrnamerktar 25 milljónir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands til að sinna geðheilbrigðismálum á Litla-Hrauni. Við höfum í raun bæði fjármagn og áætlun til þess að gera þetta þannig að fullnægjandi sé.“
 

Mikilvægast að ábyrgðin sé skýr

Umboðsmaður hefur vakið athygli á því að í lögum sé heimild til þess að vista fanga, sem eru alvarlega veikir, á heilbrigðisstofnunum og að það að vista slíka fanga í hefðbundnu fangelsi geti talist vanvirðandi meðferð. Svandís segir að það hvar geðheilbrigðisþjónustan yrði veitt yrði metið í hverju tilviki fyrir sig. Þarfirnar séu mismunandi, sumir þurfi bráðaþjónustu, aðrir viðtalsmeðferð. Aðalatriðið sé að það sé algerlega skýrt hvar ábyrgðin á  heilbrigðisþjónustu við fanga liggur. „Þar með talið geðheilbrigðisþjónustu og ég tala nú ekki um fólk sem er í alvarlegri sjálfsvígshættu, sú ábyrgð á að vera á hendi heilbrigðisþjónustunnar.“

Er þetta nóg? 

Það eru um 200 fangar í afplánun innan fangelsa og 250 utan þeirra. Dugar sú fjárhæð sem Svandís nefnir til að uppfylla þarfir þeirra fyrir geðheilbrigðisþjónustu? „Það er að minnsta kosti okkar mat núna að svo sé, við verðum þá að sjá hvernig þetta nýja fyrirkomulag gefst. Ég vil bara minna á að það fyrirkomulag se er núna er svo fullkomlega óásættanlegt að við verðum einhvers staðar að byrja. Þarna erum við að tala um 55 milljónir króna á ársgrundvelli sem er náttúrulega bylting fyrir þennan hóp og að því fylgi ekki bara fjármagn heldur líka sú skýra krafa heilbrigðisyfirvalda að þessi hópur njóti fullnægjandi þjónustu sem standist faglegar kröfur.“

Hvers vegna var ekki brugðist við fyrr?

 Þetta mál er búið að vera í kerfinu í mörg ár, endalausar bréfaskriftir milli umboðsmanns og stjórnvalda og umboðsmaður orðinn langþreyttur á stöðunni. Hvað veldur því að stjórnvöld hafa ekki  brugðist við kröfum um úrbætur fyrr?
„Það er góð spurning, ætli við þurfum ekki bara að láta svarið liggja einhvers staðar í loftinu. Þetta er krefjandi verkefni sem krefst aðkomu margra aðila. Þetta er spurning um að stjórnvöld setji mál af þessu tagi í forgang. Það hef ég gert, ég hef lagt áherslu á að þetta sé óviðunandi og stundum hefur verið sagt að það segi mest um samfélag hvernig það fer með sína viðkvæmustu hópa. Það að búa við frelsissviptingu er eitt og sér afar þungbært og erfitt fyrir refsifanga og það er ennþá flóknara ef ekki óásættanlegt að viðkomandi skuli að auki ekki njóta eðlilegrar heilbrigðisþjónustu og þar með geðheilbrigðisþjónustu.“ 

Stærsta framfaraskrefið

Páll Winkel, fangelsismálastjóri, hafði ekki heyrt af áformum Svandísar fyrr en Spegillinn greindi honum frá þeim en tekur þeim fagnandi. „Ef þetta kemst til framkvæmda myndi ég segja að þetta væri ekki bara skref fram á við heldur að öllum líkindum eitt mesta framfaraskref í heilbrigðismálum fanga frá upphafi. Og þú hefur trú á því að þetta nái fram að ganga? Ég vonast til þess því við getum ekki beðið lengur, við erum að sjá hrikalega hluti gerast í fangelsunum síðustu ár og þetta hefur verið aðkallandi vandamál lengi og hefur verið að versna. Ég held að stjórnvöld taki þessu alvarlega núna. Svandís er að sýna það í verki þarna og ég er ákaflega ánægður með það.“ 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV