Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hyggst taka verkalýðsframboð upp hjá ASÍ

06.12.2019 - 09:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR, segir starfslokasamning eins og þann sem gerður var við Harald Johannesen ríkislögreglustjóra hluta af því að ýtt sé undir réttindi ákveðinna hópa umfram aðra. Það sé angi af djúpri spillingu. Hann vill að verkalýðshreyfingin bjóði fram til Alþingis og hyggst taka það upp á miðstjórnarfundi ASÍ.

Starfslokasamningur Haraldar Johannesen ríkislögreglustjóra hefur vakið nokkra athygli. Hann hættir störfum um áramótin en verður á launum í tvö ár eftir það án þess að hafa nokkrar starfsskyldur. Þó getur dómsmálaráðherra kallað hann til ráðgjafastarfa.

Ragnar sagði í Morgunútvarpi Rásar tvö að þetta sé dæmi um að menn sem grunur leikur á að standi sig ekki séu verðlaunaðir með veglegum starfslokasamningi eða nýrri stöðu. „Þetta er ekki það sem er að gerast á almennum vinnumarkaði. Við getum kannski unnið okkur inn sex mánaða uppsagnarfrest eftir tíu ára starf. […] Þarna erum við að tala um miklu meira. Ef við ætlum að fara að vinna traust á stjórnsýslunni og stjórnvöldum þá verður fólk að haga sér þannig að við getum ekki farið að búa til sérstaka forréttindastéttir í okkar samfélagi sem fá alltaf miklu meira en allir hinir.“

Angi af djúpri spillingu

Aðspurður hvort dómsmálaráðherra hefði getað tekið öðruvísi á málinu í ljósi þeirra reglna sem eru í gildi sagðist Ragnar ekki vilja leggja dóm á það. Hins vegar sé margt í regluverkinu til þess fallið að ýta undir réttindi ákveðinna hópa. Hann vísar í að aukið vantraust sé á milli Alþingis og þjóðarinnar. „Þetta er bara angi af þessari djúpu spillingu,“ segir Ragnar.

Hann segir stjórnmálaflokkar og ríkisstjórnir hafa svikið þau loforð sem hafi verið gefin og það skapi vantraustið. Þetta hafi gerst í öllum ríkisstjórnum frá hruni – loforð hafa verið sópuð út af borðinu. „Ég held að kjósendur treysti ekki núverandi flokkakerfi til að leysa þennan vanda og brúa þessa djúpu gjá. Ég hef talað um að verkalýðshreyfingin eigi að bjóða fram. Hún er sterk og hefur aflað sér mikils trausts.“

Ragnar segist ekki endilega vera að tala um stjórnmálaflokk sem yrði til eilífðarnóns heldur framboð sem geti komið sér saman um ákveðin verkefni sem kjósendur hafi trú á að get leitt til breytinga í samfélaginu. Þessir kostir séu ekki til staðar í dag. Ekki sé þó farið að skoða þetta af alvöru. „Ég held samt að það fari að styttast í að ég taki þetta fyrir, til dæmis á fundi miðstjórnar Alþýðusambandsins. Eftir að ég steig fyrst fram með þessar hugmyndir hef ég fengið gríðarleg viðbrögð. Ég held ég hafi aldrei fengið eins mikil viðbrögð við neinu sem ég hef sett fram.“

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV