Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Hyggjast banna hana á Akureyri

05.12.2011 - 18:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Hanar verða bannaðir með öllu á Akureyri, samkvæmt nýjum reglum um hænsnahald, sem nú eru í vinnslu hjá Akureyrarbæ.

Akureyrarbær vinnur að endurskoðun á samþykkt um búfjárhald. Stærstu breytingarnar snúa að hænsnahaldi. Samkvæmt nýju samþykktinni verða hanar bannaðir, nema á lögbýlum. Eins þarf að sækja um leyfi fyrir hænsnahúsum og krafist verður samþykkis nágranna áður en leyfi til hænsnahalds er veitt.

Jón Birgir Gunnlaugsson, forstöðumaður umhverfismála hjá Akureyrarbæ, segir að bæjaryfirvöldum hafi borist til eyrna að fólk haldi hana sem ónæði sé af. Gefnar hafi verið undanþágur frá samþykktinni um búfjárhald og og fólki verið leyft að halda hænsni. Að hans sögn halda þrír í bænum hænsni um þessar mundir og fleiri hafa sýnt slíkum búskap áhuga. Til dæmis sóttu tuttugu manns námskeið um hænsnahald, sem nýlega var haldið hjá Símey.

Jón Birgir segir að áhuginn fyrir hænsnahaldi hafi stóraukist og bærinn hafi fengið margar fyrirspurnir. Fólk verði hins vegar að hafa góðan húsakost fyrir hænurnar. Kofarnir verða að vera einangraðir og í þeim þarf að vera vatn og rafmagn. Jón Birgir segist ekki vita hvað veldur þessum aukna áhuga á að halda hænur.