Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hyggjast auka umsvif sín á Grænlandi

02.11.2019 - 23:17
Mynd með færslu
Bombardier-vél Air Iceland Connect á Grænlandi Mynd: Grænlandsflugvellir - Grælnlandsflugvellir
Íslenska flugfélagið Air Iceland Connect hyggst auka umsvif sín í Grænlandsflugi þegar nýir flugvellir verða teknir í notkun á Grænlandi eftir fjögur til fimm ár. Grænlenska blaðið Sermitsiaq greinir frá þessu. Þar segir að forsvarsmenn AIC búist við auknum ferðamannastraumi til Grænlands með tilkomu nýrra og fullkominna flugvalla sem þar verða byggðir á næstu árum, og að félagið ætli að grípa þau tækifæri sem í því felast.

Árni Gunnarsson, forstjóri Air Iceland Connect, segir í samtali við blaðið að Grænland sé eitt af lykilmarkaðssvæðum félagsins. Hann geti þó ekki gefið upp nein smáatriði áætlunum þess varðandi Grænlandsflugið enn sem komið er, þær verði varla tilbúnar fyrr en 2022. „En við sjáum fram á að styrkja og auka Grænlandsflugið með tilkomu nýju flugvallanna,“ segir Árni.

Flugvellirnir geri ævintýraþyrstum ferðalöngum auðveldara að ferðast til Grænlands og því muni ferðafólki þangað fjölga. Árni færist hins vegar undan því að svara af eða á um það, hvort félagið hyggi á innanlandsflug á Grænlandi. „Við höfum ekki skoðað það. Það er ekki inni í áætlunum okkar. En um það, hvað gerist eftir fjögur eða fimm ár,“ bætir hann við, „það getur maður ekkert spáð fyrir um.“