Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hvít af ryki og grét af sársauka og ótta

25.09.2016 - 18:52
Mynd með færslu
Rawan var bjargað undan húsarústum en fjölsylda hennar fórst. Mynd:
In this photo provided by the Syrian Civil Defense White Helmets, men stand in rubble after airstrikes hit eastern Aleppo, Syria, Friday, Sept. 9, 2016. Volunteer first responders in Syria's Aleppo have pulled the bodies of nine people, including
Myndin var tekin í Aleppo á föstudag eftir enn eina loftárásina sem þar var gerð. Mynd: AP Images
Fulltrúar Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna gagnrýndu Rússa harkalega á neyðarfundi ráðsins í dag og sökuðu þá um að hafa framið stríðsglæpi í Sýrlandi. Erindreki Sameinuðu þjóðanna telur fullreynt að stríðið vinnist með hervaldi.

Ban Ki-Moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hvatti þjóðarleiðtoga til að leggja harðar að sér við að binda enda á martröðina í Sýrlandi. Þetta sagði hann í tilefni af fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um stríðið í Aleppo, en fundurinn stendur nú yfir. Staffan de Mistura, erindreki Sameinuðu þjóðanna í málefnum Sýrlands, segir að stríðið verði ekki stöðvað með áframhaldandi hernaði. Enginn geti staðið uppi sem sigurvegari í þessu stríði.

Samantha Power, talsmaður Bandaríkjanna í öryggisráðinu, sakar Rússa um villimennsku í Aleppo.  Á fundinum lýsti Power björgun Rawan, fimm ára stúlkubarns, sem var grafin upp úr húsarústum eftir loftárás á Aleppo í vikunni. Hún var hvít af ryki og grét af sársauka og ótta. Öll fjölskylda hennar lést í loftárásinni. Ef engin refsing liggur við slíkum árásum á óbreytta borgara, hvaða möguleika á Rawan, spyr Power.

Beittu fosfórsprengju á íbúabyggð

Myndband af árás sýrlenska stjórnarhersins á Huraytan, rétt norðan við Aleppo, bendir til að notuð hafi verið fosfórsprengja. Óheimilt er samkvæmt alþjóðalögum að nota forsfórsprengjur í þéttbýli. Ef hvítur forsfór lendir á húð fólks getur það brunnið inn að beini.

Utanríkisráðherra Frakklands segir að stríðsglæpir séu framdir í Sýrlandi og nauðsynlegt að bregðast við því. Undir þetta tóku fulltrúar Bretlands og Bandaríkjanna á fundinum.

Talsmaður Rússa í öryggisráðinu segir uppreisnarmenn óvinveitta Assad Sýrlandsforseta skýla sér bakvið konur og börn. 

Börn grafin undir húsarústum

Ekki færri en 180 almennir borgarar, þar af minnst þrjátíu börn, hafa dáið í árásunum frá því að vopnahléið fór út um þúfur í byrjun vikunnar og mörg hundruð særst. Hátt í 200 loftárásir hafa verið gerðar á Aleppo frá því á föstudag. Þá greinir fréttastofa CNN frá því að sex börn hafi látist í tunnusprengjuárás á Aleppo í dag. Undanfarna daga hafa birst myndbönd af því þegar björgunarmenn grafa börn upp úr rústum húsa í Aleppo. Óttast er að fleiri liggi grafin undir rústunum.