Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hvetur til að kjör bankanna verði rannsökuð

25.08.2018 - 16:43
Mynd með færslu
 Mynd: rúv - rúv
Fyllsta ástæða er til þess að leggja í rannsókn á þeim kjörum sem almenningur fær í viðskiptabönkum hér á landi, bæði vöxtum og þjónustugjöldum og bera saman við sambærileg kjör annars staðar á Norðurlöndum. Þetta kemur fram í skýrslu sem Gylfi Zoega hagfræðingur vann fyrir forsætisráðuneytið í aðdraganda kjarasamninga.

„Samkeppnisyfirvöld gætu framkvæmt slíka rannsókn og gripið til aðgerða ef í ljós kæmi að samkeppni væri áfátt. Hugsanlegt er að sameining banka myndi lækka kostnað þeirra og bæta þau kjör sem viðskiptamönnum bjóðast. Tryggja þyrfti að minni kostnaður í bankakerfi lækkaði útlánsvexti og kostnað viðskiptavina en leiddi ekki einungis til aukins hagnaðar bankanna við fákeppni. Einnig þyrfti að huga að því hvaða áhrif fækkun banka gæti haft á samkeppni,“ segir Gylfi í skýrslunni.

Gylfi segir að svo virðist vera sem íslenskt bankakerfi viðrist vera dýrara í rekstri en sambærilegir bankar annars staðar á Norðurlöndum. „Þannig er vaxtamunur – munur vaxta á innlánum og útlánum – meiri hér á landi. Fyllsta ástæða er til þess að leggja í rannsókn á þeim kjörum sem almenningur fær í viðskiptabönkum hér á landi, bæði vöxtum og þjónustugjöldum, og bera saman við sambærileg kjör annars staðar á Norðurlöndum,“ segir hann.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV