Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hvetja fólk til að gefa gömul reiðhjól

24.03.2016 - 11:45
Barnaheill hvetja almenning til að gefa reiðhjól sem sjaldan eru notuð til barna og unglinga sem ekki geta keypt sér reiðhjól. Sorpa tekur við hjólunum út apríl.

Hjólasöfnun Barnaheilla var hleypt af stokkunum í Sorpu í gær. Með söfnuninni er almenningur hvattur til að gefa hjól til barna og unglinga sem ekki eiga kost á því að kaupa sér reiðhjól. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri reið á vaðið og gaf hjól í söfnunina.

„Mér finnst þetta alveg til fyrirmyndar. Í fyrsta lagi er þetta félagslega mjög gott, að allir geti átt hjól, en svo er þetta líka umhverfislega skynsamlegt og mikilvægt að endurnýta hjól sem annars liggja bara ónotuð inni í geymslum. Svo á fólk að vera óhrætt við að koma með hjól sem eru kannski aðeins í skralli því hér verða sjálfboðaliðar sem gera við hjólin og Sorpa sem teku við þannig að þetta á ekki að vera mikið mál,“ segir Dagur.

Jafna stöðu barna

Þóra Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Barnaheillum, segir að söfnunin standi út apríl. Hægt sé að skila hjólum á öllum söfnunarstöðvum Sorpu á höfuðborgarsvæðinu.

„Og við hvetjum almenning til að kíkja inn í skúr til að athuga hvort þar leynist hjól sem ekki er í notkun og geti mögulega komist áfram í endurnýtingu og endurtekna notkun fyrir börn sem búa mögulega við síðri aðstæður en við flest eigum að venjast,“ segir Þóra.

Þetta er í fimmta sinn sem söfnunin er haldin. Alls hafa Barnaheill komið um 700 hjólum til nýrra eigenda á þeim tíma.

„Það er því miður alltof stór hópur í samfélaginu sem býr við bág kjör og við þurfum að gæta að því sem samfélag að hlúa að þessum hópum og jafna stöðu þessara barna og gera þeim kleyft að taka þátt í samfélagi barnanna og vera félagslega virk.“

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV