Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hvernig yrðu sameinaðir Vestfirðir?

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Á Vestfjörðum eru níu sveitarfélög, þar af er einungis Ísafjarðarbær með yfir þúsund íbúa. Ef þingsályktunartillaga sveitarstjórnarráðherra um málefni sveitarfélaga sem gerir ráð fyrir þúsund íbúa lágmarki er samþykkt verða öll hin sveitarfélögin á kjálkanum að leita til sameininga. Þar af eru þrjú sveitarfélög sem ná ekki 250 íbúum og yrðu því að sameinast fyrir næstu almennu sveitarstjórnarkosningar 2022. Það eru Súðavíkurhreppur, Árneshreppur og Kaldrananeshreppur.

Sameinaðar Strandir og Reykhólar

Leiða má líkur að því að á Ströndum sameinist Árneshreppur, Kaldrananeshreppur og Strandabyggð. Sameinaðar strandir telja þó ekki nema um 600 íbúa og neyðast því til að leita lengra. Allar líkur eru þá að sameinist verði Ísafjarðarbæ eða Reykhólahreppi. Um 850 íbúar byggju í sameinuðum Ströndum og Reykhólum og sagan þar því ekki öll sögð.

Mynd með færslu
Sameinaðar Strandir og Reykhólar teldu um 850 íbúa

Árneshreppur er fámennasta sveitarfélag landsins með 40 íbúum. Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti, segir samgöngur helsta áhersluatriði hreppsnefndar ef til sameiningaviðræðna komi. Þar vegur Veiðileysuháls þyngst.

Kaldrananeshreppur telur um hundrað íbúa og þar af búa flestir á Drangsnesi. Finnur Ólafsson, oddviti hreppsins, telur lágmarksíbúafjölda illa ígrundaðan grundvöll fyrir sameiningum sveitarfélaga og telur þá að Strandir færu illa út úr því vegna samgangna.  

Strandabyggð er 450 íbúa sveitarfélag og í henni er þéttbýliskjarninn Hólmavík. Oddviti sveitarfélagsins, Jón Gísli Jónsson, segir sveitarstjórn tilbúna til að ræða sameiningar og segir mikilvægt að leggja áherslu á að sveitarfélögin séu sterkari fyrir vikið. Hann tekur þó í sama streng og kollegi hans í Kaldrananeshreppi um að lágmarksíbúafjöldi sé ekki ákjósanlegur til að byggja sameiningar á.

Reykhólahreppur nær rétt yfir 250 íbúa og þarf þess vegna ekki að sameinast fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar ef þingsályktunartillagan er samþykkt. Ingimar Ingimarsson, oddviti hreppsins, segir mikilvægt að byggð og atvinnustarfsemi haldist í Reykhólabyggð ef til sameininga kemur. Þá nefnir hann Strandir og Dalabyggð sem sameiningarmöguleika, þau sveitarfélög starfi mikið og vel saman.

Mynd með færslu
Eva Sigurbjörnsdóttir segir samgöngumál helsta áhersluatriði Árneshreppsbúa
Drónamyndir af Reykhólum.
Reykhólar eiga gott samband við Stranda- og Dalamenn

Sameiningar á Suðurfjörðum

Líklegt þykir að Tálknafjörður og Vesturbyggð sameinist ef þingsályktunartillagan er samþykkt. Tálknafjörður felldi sameiningartillögu á Suðurfjörðum 1994 þegar Vesturbyggð varð til úr Barðastrandarhreppi, Rauðasandshreppi, Bíldudalshreppi og Patrekshreppi. Þá hefur Vesturbyggð leitað til Tálknafjarðar með sameiningar í huga án árangurs, síðast 2013.

Vesturbyggð er rétt undir þúsund íbúum. Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, segir sameiningar af jákvæðu meiði þótt að neikvætt sé að þvinga sveitarfélög til sameininga á grundvelli íbúatölu. Samgöngumál vega þungt hjá sveitarfélaginu. Þegar eru þrír erfiðir fjallvegir innan Vesturbyggðar og að litið verði til þess í sameiningaviðræðum.

Tálknafjörður er rúmlega 250 íbúa sveitarfélag. Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri í Tálknafjarðarhreppi segir íbúa opna fyrir sameiningarmöguleikum. Þegar hafa sveitarstjórnir Vesturbyggðar og Tálknafjarðar fundað sín á milli en að hugur sé einnig fyrir því að horfa lengra og sameinast fleirum. Bryndís segir að tryggja verði að þjónusta skerðist ekki og að ábyrgð og völdum sé dreift innan sveitarfélags.

Mynd með færslu
Bryndís Sigurðardóttir segir Tálknfirðinga tilbúna til að horfa lengra í sameiningum

Sameiningar á norðanverðum Vestfjörðum, eða ekki.

Á norðanverðum Vestfjörðum eru Ísafjarðarbær, stærstur sveitarfélaga á kjálkanum, Súðavík og Bolungarvík. Draga má þá ályktun að Súðavík sameinist Ísafjarðarbæ, ekkert er þó á borði þar og engar viðræður hafnar. Þá eru Bolvíkingar ekki tilbúnir til sameiningar.

Mynd með færslu
Jákvæðni ríkir gagnvart sameiningum í Ísafjarðarbæ samkvæmt Guðmundi Gunnarssyni

Ísafjarðarbær er stærstur sveitarfélaganna á Vestfjarðarkjálka bæði að flatarmáli og í íbúatölu með um 3500 íbúa. Hann myndaðist við sameiningu Þingeyrar, Mýrarhrepps, Mosvallahrepps, Flateyrar, Suðureyrar og Ísafjarðar. Í honum eru fimm þéttbýliskjarnar: Ísafjörður, Hnífsdalur, Suðureyri, Flateyri og Þingeyri. Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri, segir jákvæðni í Ísafjarðarbæ gagnvart sameiningum og að mikilvægt sé að ganga í þær á forsendum íbúa. Þá sé stærðarhagkvæmni áherslumál í sameiningaviðræðum.

Súðavíkurhreppur telur um 200 íbúa og yrði því að sameinast fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri, segir hreppinn mótfallinn sameiningum á þeim grundvelli sem lagður er til í þingsályktunartillögu ráðherra. Þá segir hann ekki búið að skoða hvert yrði horft í sameiningarviðræðum. Litið yrði til samgöngumála með áherslu á Súðavíkurgöng ef til viðræðna kæmi.

Bolungarvík er undir þúsundarmarkinu með 950 íbúa. Þar hefur áætlunin Bolungarvík þúsund plús litið dagsins ljós, þar sem lagt er upp úr uppbyggingu í bænum með það að markmiði að ná þúsund íbúum áður en sveitarfélagið yrði að sameinast. Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkur, segir enga vinnu fara fram innan sveitarfélagsins sem lítur að sameiningum og að allir kraftar fari í að efla sveitarfélagið.

Myndir teknar með dróna.
Með átakinu Bolungarvík þúsund plús vonast Bolvíkingar til að komast undan sameiningum

Sveitarfélagið Sameinaðir Vestfirðir

Þá hafa einhverjir forsvarsmenn sveitarfélaga nefnt sameinaðan Vestfjarðakjálka sem mögulega lendingu. Ef sveitarfélagið Sameinaðir Vestfirðir liti dagsins ljós teldi það um 7000 íbúa sem dreifðust um sveitir og þrettán þéttbýliskjarna. Ferðatími innan sveitarfélags yrði þá töluverður. Til að mynda tekur tæpar fimm klukkustundir að aka um 330 kílómetra frá Tálknafirði og norður í Árneshrepp, í góðri færð. Þá væri flatarmál sveitarfélagsins um 8800 ferkílómetrar, eða á við átta höfuðborgarsvæði.

Þetta eru engu að síður einungis getgátur og verður meðferð þingsályktunartillögu Sigurðs Inga Jóhannssonar, sveitarstjórnarráðherra, ásamt þeim viðræðum sem fylgja að gefa í ljós hver lendingin verður. Enginn vafi leikur þó á því að með óbreyttu sniði verða sveitarfélög Vestfjarða að ganga undir töluverðar breytingar á næstu árum.

Mynd með færslu
Sameinaðir Vestfirðir yrðu á við átta höfuðborgarsvæði að flatarmáli
Mynd með færslu
Um fimm klukkustundir tekur að keyra frá Tálknafirði til Árneshrepps