Hvernig eignast maður íbúð?

Mynd: RÚV / Jóhannes Jónsson

Hvernig eignast maður íbúð?

29.05.2018 - 14:44
Það er líklegast draumur flestra að eignast á endanum íbúð, eða bara húsnæði yfir höfuð. Það eru hins vegar ekki allir sem að gera sér grein fyrir því ferli sem að fylgir því og fæstir vita við hverju þeir eiga að búast.

Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri Íslandsbanka mun vera með fræðslufund um þessi málefni miðvikudaginn 30.maí, þar verður farið yfir ferlið á sem skýrastan hátt og reynt að undirbúa þá sem að eru að hugsa sér að kaupa sína fyrstu fasteign fyrir það sem fram undan er.

Ástandið á Íslandi í dag er ekkert sérstaklega hentugt fyrir ungt fólk en meðalaldur þeirra sem að kaupa sér fyrstu íbúð er 33 ára, þó svo að meðalaldur þeirra sem að að flytja að heiman sé aðeins 23 ára.

Það er í raun ómögulegt að kaupa sér fyrstu íbúð án þess að taka lán og því þarf að hugsa fyrir því hvar og hvernig maður gerir það. Hins vegar verður maður líka að eiga fyrir útborgun og þá þarf að safna sér pening. Fyrsta útborgun fyrir íbúð á höfuðborgarsvæðinu getur verið allt að 4-6 milljónir.

„Það sem er erfitt er það að við áttum okkur ekki á því að við þurfum að vera að spara, fyrr en það er orðið of seint,“ segir Björn og hvetur alla sem eru í þeim hugleiðingum að kaupa sér íbúð, hvort sem það er eftir 1 eða 5 ár að byrja að spara.

Hann segir töfralausnina vera sjálfvirkan sparnað, reikninga þar sem að tekin er ákveðin upphæð sjálfkrafa af reikningnum þínum í hverjum mánuði og hún sett á annan reikning. Svo er auðvitað mikilvægt að vera með peninginn á bundnum reikning þannig að það sé ákveðinn stoppari til staðar ef freistingin lætur kræla á sér.

Björn bendir líka á að það ætti oftast að vera allavega eitthvað svigrúm til þess að leggja fyrir. „Það er dýrt að eiga bíl, fara í heimsreisu og borða dýran mat, ertu mögulega til í að fórna því til að vera fljótari að spara fyrir íbúð?“

Björn Berg var gestur í Núllinu og hægt er að hlusta á innslagið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.