Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Hvernig dirfist þið?“

Mynd: EPA-EFE / EPA
„Skilaboðin mín eru að við erum að fylgjast með ykkur,“ sagði Greta Thunberg þegar hún var spurð hvort hún hefði einhver skilaboð til heimsleiðtoga á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York í dag. Thunberg er gestur ráðstefnunnar en hún er 16 ára loftslagsaktívisti sem hóf skólaverkfall fyrir loftslagið fyrir rúmu ári síðan.

Thunberg uppskar lófaklapp fyrir og léttan hlátur fyrst. „Ég á ekki að þurfa að vera hér á sviðinu. Ég á að vera í skólanum handan Atlantshafsins. En þið snúið ykkur alltaf til okkar unga fólksins til þess að öðlast von. Hvernig dirfist þið?“ spurði Thunberg fullan sal af leiðtogum ríkisstjórna ríkja heims og barðist við tárin.

„Þið hafið rænt draumum mínum og æsku minni með innantómum orðum. En ég er einna heppnust. Fólk þjáist og fólk deyr. Heilu vistkerfin eru hrynja. Við sjáum fram á fjöldaútrýmingu og það eina sem þið getið talað um eru peningar og tröllasögur um endalausan hagvöxt. Hvernig dirfist þið?“

„Í meira en þrjátíu ár hafa vísindin verið á hreinu. Hvernig dirfist þið að líta undan og koma hingað og fullyrða að þið séuð að gera nóg, þegar stefnumörkunin og lausnirnar eru hvergi sjáanlegar?“

Stemningin í salnum breyttist fljótt þegar ljóst var að skilaboð Thunberg voru virkilega alvarleg.

„50% er kannski ásættanlegt fyrir ykkur, en sú tala gerir ekki ráð fyrir vendipunktum, flestum svörunarkerfum og aukinni hlýnun vegna mengandi efna í andrúmsloftinu, eða sjónarhornum sanngirni og loftlagsréttlætis,“ sagði Thunberg.

„Þið eruð að bregðast okkur“

„Tölurnar treysta einnig á að mín kynslóð sjúgi milljarða tonna af ykkar koltvísýringi úr andrúmsloftinu með tækni sem naumast er til. Þetta er einfaldlega ekki ásættanlegt fyrir okkur sem þurfum að lifa með afleiðingunum,“ sagði Thunberg í ávarpi sínu og benti á að þær spár og þær fjárhæðir sem lagðar hafa verið til að bregðast við vandanum munu klárast eftir átta og hálft ár.

„Það verða engar lausnir eða áætlanir hér í dag því þessar tölur eru of óþægilegar og þið eruð ekki enn nógu viss í ykkar sök til að vera hreinskilin með það.“

„Þið eruð að bregðast okkur en unga fólkið er að átta sig á svikum ykkar. Augu allra framtíðarkynslóða eru á ykkur. Ef þið veljið að svíkja okkur þá munum við aldrei fyrirgefa ykkur,“ sagði Thunberg og uppskar klapp aftast í salnum. „Við munum ekki leyfa ykkur að komast upp með þetta. Hér og nú drögum við línuna. Breytingarnar munu verða, hvort sem ykkur líkar það eða ekki!“

Leiðtogi yngstu kynslóðar veraldar

Thunberg vakti fyrst athygli þegar hún ákvað að skrópa í skóla og standa fyrir framan þinghúsið í Stokkhólmi og mótmæla aðgerðaleysi stjórnvalda í loftslagsmálum. Þetta gerði hún í hverri viku þar til stór fylking skólabarna var farin að mótmæla við byggingar þjóðþinga um allan heim. Nýverið fögnuðu börnin árs afmæli mótmælanna.

Thunberg hefur hlotið heimsathygli fyrir þrautseigju sína og skýr skilaboð. Hún er orðin að leiðtoga alheimsákalls yngstu kynslóða veraldar um aðgerðir stjórnvalda í takt við alvarleika loftslagsvárinnar.