Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hverjir eru Róhingjar?

26.09.2017 - 18:00
Erlent · Asía · Mjanmar · Róhingjar
epa06226277 Rogingya refugees in the 'no men's land' are crossing a ditch carrying sacks of relief goods at Tambru border, Bandarban, Bangladesh, 25 September 2017. Myanmar's State Counsellor Aung San Suu Kyi on 19 September said the
 Mynd: EPA
Hátt í hálf milljón fólks af Róhingja-þjóðinni hefur flúið Mjanmar frá því blóðug átök brutust út í landinu fyrir rétt rúmum mánuði. Stjórnarher landsins hefur verið gagnrýndur fyrir að gera ekki greinarmun á skæruliðum og óbreyttum borgurum í hernaðaraðgerðum sínum í Rakhine-héraði.

Blóðug átök brutust út 25. ágúst síðastliðinn þegar uppreisnarmenn úr röðum Róhingja réðust að tugum landamærastöðva. Stjórnarherinn hefur í framhaldinu farið fram af svo mikilli hörku og ákefð gegn Róhingjum, vopnuðum jafnt sem óvopnuðum, að því hefur verið líkt við þjóðernishreinsanir.

Sameinuðu þjóðirnar greindu frá því í dag að alls hafi um 480 þúsund Róhingjar nú flúið yfir til Bangladess. Að minnsta kosti 240 þúsund flóttamannanna eru sagðir vera á barnsaldri. Flóttafólkið bætist við um 300 þúsund Róhingja sem voru fyrir í flóttamannabúðum í Bangladess og hafa verið frá því á átakaskeiði á tíunda áratugnum og sumir jafnvel lengur. 

Greint var frá því í fréttum RÚV í liðinni viku að Svíþjóð, Frakkland, Bretland, Bandaríkin og þrjú ríki til viðbótar hafi kallað eftir fundi í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til að ræða skálmöldina í Rakhine-héraði í Mjanmar.

epa06198408 Rohingya refugees wait to receive relief goods during hot weather in Ukhiya, Cox's Bazar, Bangladesh, 11 September 2017. Rohingya refugees experience huge problems to find shelters as they stay on the streets, inside small forest and in
 Mynd: EPA
Róhingja-flóttafólk bíður eftir því að fá neyðaraðstoð í flóttamannabúðum nærri borginni Cox's Bazar í Bangladess.

Hverjir eru Róhingjar?

Meirihluti Róhingja er íslamstrúar og hefur þjóðin, sem telur rúma milljón manns, búið þar sem nú er Mjanmar allt frá því á tólftu öld.
Í Mjanmar búa rúmlega 50 milljónir og er meirihlutinn búddatrúar. Meirihluti Róhingja býr í Rakhine-héraði, einu fátækasta héraði landsins.  

Þjóðin talar sitt eigið tungumál, Rohingya eða Ruaingga, sem er mállýska ólík öðrum bæði í Rakhine-héraði og annars staðar í Mjanmar. Róhingjar teljast ekki til 135 opinberra þjóðarbrota í landinu og hefur verið neitað um ríkisborgararéttindi frá árinu 1982. Það gerir þjóðina í raun ríkisfangslausa. Þetta gerir það að verkum að þeir eru ekki frjálsir ferða sinna og hafa ekki sama aðgengi að heilbrigðisþjónustu, menntun og atvinnu og aðrir í Mjanmar.

Róhingjar hafa þurft að þola ofsóknir í Mjanmar frá því landið öðlaðist sjálfstæði 1948. Margir neita að kalla Róhingja annað en Bengala og neita að viðurkenna þá sem Mjanmara þar sem menningarsaga þeirra eigi ekkert skylt við ríkið. 

Líkindi milli Róhingja og íbúa í héraðinu Chittagong í Bangladess má að miklu leyti rekja til þess að það voru Bretar sem ákváðu hvar landamæri Mjanmar og Bangladess ættu að liggja. Róhingjar hafa einnig samsamað sig Bangladess eins og mátti sjá í sjálfstæðisbaráttu þeirra. 

epa06198409 A Rohingya woman holds her baby boy as she tries to get off a truck after getting from the border near a camp in Ukhiya, Cox's Bazar, Bangladesh, 11 September 2017. Rohingya refugees experience huge problems to find shelters as they stay
 Mynd: EPA
epa06208783 A Rohingya refugee collects relief at Palongkhali Bazar, Ukhiya, Bangladesh, 16 September 2017. According to UNHCR more than 400 thousand Rohingya refugees have fled Myanmar from violence over the last few weeks, most trying to cross the
 Mynd: EPA

Stjórnarsaga Mjanmar/Búrma

Indland var undir yfirráðum Bretlands frá 1824 til 1948 en á þeim tíma töldust bæði Bangladess og Mjanmar til Indlands. Á tímum breska heimsveldisins var mikið um að fólk færi landshluta á milli í leit að vinnu og þar sem Mjanmar var á þessum tíma hérað á Indlandi álitu bresk yfirvöld að fólksflutningarnir væru innanlands. Íbúar á þessum svæðum voru hins vegar annarrar skoðunar. 

Aye Chan, prófessor við Kanda University í Japan, segir í umfjöllun fréttastofu ABC í Ástralíu, að fjöldi íslamskra farandverkamanna og fjölskyldna þeirra í Mjanmar hafi aukist úr rúmlega 58 þúsundum árið 1871 í hátt í 179 þúsund árið 1911. Nýlenduskrár Breta sýni að stór hluti farandverkamanna hafi komið til Mjanmar frá Bangladess. Þess vegna er deilt um það hvort Róhingjar hafi verið í Mjanmar í margar kynslóðir eða hvort þeir séu nýkomnir til landsins og eigi ekki skilið að fá ríkisborgararétt. 

Indland, Pakistan, Bangladess og Mjanmar, þá Búrma, lýstu yfir sjálfstæði árið 1948. Eftir að Mjanmar hlaut sjálfstæði litu stjórnvöld landsins svo á að fólksflutningar undir breskum yfirráðum hefðu verið ólöglegir og neituðu því meirihluta Róhingja um ríkisborgararétt, segir í skýrslu Mannréttindavaktarinnar frá árinu 2000. Spenna hefur verið í samskiptum stjórnvalda og Róhingja síðan. 

Herforingjastjórn var í Búrma frá árinu 1962 til ársins 2011. Í stjórnartíð hersins var öllum borgurum skylt að útvega sér skjöl til staðfestingar því að þeir væru skráðir borgarar landsins. Róhingjar fengu hins vegar aðeins skírteini um að þeir væru erlendir og takmarkaði það atvinnuþátttöku þeirra og tækifæri til menntunar. 

Árið 1982 var ný löggjöf samþykkt sem í raun gerði Róhingja ríkisfangslausa. Samkvæmt lögunum voru Róhingjar ekki einn af 135 þjóðflokkum landsins sem stjórnvöld viðurkenndu. Þá hafa þeir ekki heldur kosningarétt í landinu. 

Frá því á áttunda áratug síðustu aldar hafa mörg hundruð þúsund Róhingjar flúið Mjanmar yfir til Bangladess, Malasíu, Taílands og annarra ríkja Suðaustur-Asíu. Áður en átökin brutust út í ágúst síðastliðnum áætluðu Sameinuðu þjóðirnar að allt að 420 þúsund Róhingjar væru þegar flóttamenn í Suðaustur-Asíu og að um 120 þúsund til viðbótar væru á flótta innan Mjanmar.  

Árið 2015 fékk Aung San Suu Kyi, forseti Mjanmar, friðarverðlaun Nóbels. Herinn hefur þó enn mikil völd í landinu. 

„Herinn í Mjanmar hefur í hendi sér að leysa krísuna,“ segir Ali Riaz, sérfræðingur í samskiptum Bangladess og Mjanmar og prófessor við Illinois State háskólann í Bandaríkjunum, í samtali AFP. 

epa06198377 Rohingya refugees sit under trees in a forest during hot weather in Ukhiya, Cox's Bazar, Bangladesh, 11 September 2017. Rohingya refugees experience huge problems to find shelters as they stay on the streets, inside small forest and in
 Mynd: EPA

Hver er sagan á bak við óvildina?

Mögulega má rekja óvild í garð Róhingja að einhverju leyti til seinni heimstyrjaldarinnar þótt hún nái sögulega séð mun lengra aftur. Í seinni heimstyrjöldinni börðust Róhingjar með Bretum í Rakhine-héraði gegn búddistum sem voru bandamenn Japana. Bretar lofuðu Róhingjum sjálfstæði að launum en stóðu ekki við það. Eftir stríð og þegar sjálfstæði landsins var fengið þurfti fólk síðan að búa með fyrri andstæðingum sínum.

Róhingjar vildu allt til ársins 1970 helst fá sjálfstæði í Rakhine-héraði eða að það myndi færast undir yfirráð Bangladess. Á tíunda áratug síðustu aldar gerðu skæruliðasamtök Róhingja fjölda árása á landamærastöðvar Mjanmar, þá Búrma, við landamærin að Bangladess. Átökin urðu til þess að fjöldi fólks lagði á flótta og eru margir þeirra enn í flóttamannabúðum í nágrannaríkjum Mjanmar. 

Ástandið í samskiptum búddista og Róhingja í Rakhine-héraði versnaði mjög árið 2012 þegar átök brutust út sem kostuðu 200 manns lífið og um 140 þúsund Róhingjar lögðu á flótta. Um 100 þúsund Róhingjar eru enn vegalausir og við hungurmörk í flóttamannabúðum innan Mjanmar. 

Átökin í Rakhine-héraði nú má rekja aftur til október í fyrra þegar níu landamæraverðir voru myrtir. Stjórnvöld kenndu skæruliðum Róhingja um morðin og sendu hersveitir inn í þorp í Rakhine-héraði. Í þessum aðgerðum eru hermenn sagðir hafa tekið fólk af lífi án dóms og laga og sakaðir um nauðganir og íkveikjur.

Átökin færðust í aukana eftir samræmdar árásir skæruliða á 30 landamærastöðvar í ágúst síðastliðnum. Tólf létu lífið í árásinni. Stjórnarherinn brást skjótt við. Íbúar hafa lýst því hvernig stjórnarhermenn hafi skotið á óvopnaða Róhingja, karlmenn, konur og börn, án þess að gera greinarmun á hvern var skotið. Stjórnvöld segja hins vegar að nærri 100 manns hefðu látið lífið þegar vopnaðir menn úr Frelsisher Arakan Rohingya, ARSA, hefðu ráðist á varðstöðvar lögreglu í Rakhine héraði. Yfir fjögur hundruð þúsund Róhingjar hafa flúið ofbeldið yfir til nágrannaríkisins Bangladess. 

Svo virðist sem hindúar, sem eru í miklum minnihluta í Mjanmar, hafi lent á milli stríðandi fylkinga. Hindúar hafa flúið átökin til Bangladess og segja að bæði hermenn og vígamenn búddhista hafi beitt þá ofbeldi. Í Guardian er greint frá því að stjórnvöld Mjanmar hafi tilkynnt að fjöldagröf með líkamsleifum 28 þorpsbúa, sem voru hindúar, hefði fundist á sunnudag. Í gröfinni voru líkamsleifar 20 kvenna og átta drengja. Talið er að fólkið hafi verið myrt í upphafi átakanna í ágúst. Frelsisher Róhingja segist ekki ábyrgur fyrir fjöldamorðinu og segist ekki drepa óbreytta borgara. Þessar yfirlýsingar stjórnvalda sé tilraun til að stía í sundur múslimum og hindúum. 

Í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku líkti Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu, ástandinu í Mjanmar við þjóðarmorðin í Bosníu og Rúanda.

 

Stjórnvöld í Mjanmar segja að yfir 400 hafi verið drepnir í átökunum undanfarinn mánuð og að flestir þeirra hafi verið skæruliðar. Líklegt þykir að fjöldinn sé enn meiri. Stjórnvöld hafna ásökunum um þjóðernishreinsanir og segjast vera í baráttu gegn hryðjuverkamönnum. 

epa06215399 Rohingya refugees queue to receive relief in front of makeshift tents in Ukhiya, Bangladesh, 20 September 2017. Myanmar's State Counsellor Aung San Suu Kyi on 19 September said the governments of Myanmar and neighboring Bangladesh were
 Mynd: EPA
Mynd: EBU / EBU
Loftmyndir af flóttamannabúðum Róhingja í Cox's Bazar í Bangladess frá því í síðustu viku.

Óttast að átökin dragi að hryðjuverkamenn 

Frelsisher Róhingja varð fyrst vart í október í fyrra. Foreign Policy segir að uppruni samtakanna sé óþekktur. Samtökin voru í upphafi titluð trúarhreyfing en forsvarsmenn þeirra segja samtökin núna berjast fyrir réttindum Róhingja en ekki af trúarástæðum.

Samtökin eru ekki óumdeild meðal Róhingja. Sérstaklega ekki eftir að tugir þorpsbúa voru drepnir í Rakhine-héraði vegna grunsemda um að þeir störfuðu með stjórnvöldum. 

„Það sem ég óttast mest er að Mjanmar sé nú kominn á kortið í múslimaheiminum sem sá staður þar sem mest er níðst á minnihlutahópi múslima,“ segir Richard Horsey, málsvari International Crisis Group, segir í viðtali við ABC í Ástralíu. Það kunni að draga að erlenda skæruliða sem nú séu að hverfa frá Írak og Sýrlandi. „Róhingjar eru að verða áberandi málstaður fyrir múslima um víða veröld. Þetta er mjög hættuleg staða fyrir Mjanmar nú þegar erlendir skæruliðar eru að yfirgefa Írak, Sýrland og suðurhluta Filippseyja.“

Al Qaeada lýsti stuðningi við Frelsisher Róhingja, ARSA, í þessum mánuði. Frelsisherinn hefur hinsvegar hafnað því að þau tengist alþjóðlegum hryðjuverkahópum. „ARSA telur nauðsynlegt að koma því á hreint að samtökin hafi engin tengsl við Al Qaeada, Íslamska ríkið, Lashkar-e-Taiba eða aðra hryðjuverkahópa sem starfa þvert á landamæri,“ segir í færslu hópsins á Twitter 14. september. 

 

epa06213002 Myanmar's State Counselor Aung San Suu Kyi gives a speech on the Myanmar government's efforts with regard to national reconciliation and peace in Naypyitaw, Myanmar, 19 September 2017. Suu Kyi used to speech to address national
Aung San Suu Kyi, leiðtogi Mjanmar. Mynd: EPA
Aung San Suu Kyi, leiðtogi Mjanmar.

Suu Kyi bregst við 

Aung San Suu Kyi hefur ekki yfirráð yfir hernum en hefur verið gagnrýnd fyrir að fordæma ekki valdbeitingu hersins sem gerir engan greinarmun á þeim sem beittir eru ofbeldi og fyrir að standa ekki með réttindum rúmlega einnar milljónar Róhingja í Mjanmar. 

Suu Kyi ávarpaði þjóð sína í liðinni viku og sagði að um áramótin hafi stjórn hennar verið við völd í 18 mánuði. Það sé of skammur tími til að ætlast til þess að hægt væri að ná fram stöðugleika í landinu sem búið hafi við átök frá því það fékk sjálfstæði árið 1948.

Hún sagðist finna til með öllum þeim sem þjást vegna átakanna í Rakhine-héraði landsins og fordæmdi þau mannréttindabrot sem kunni að hafa verið framin í átökunum. Hún nefndi ekki Róhingja sérstaklega en sagði stjórnvöld áhyggjufull yfir þeim fjölda múslima og annarra þjóðarbrota sem hafa flúið átakasvæði yfir til Bangladess.

Hún sagði að stjórnvöld vildu að rannsakað væri hvers vegna fólk væri enn að flýja í ljósi þess að engin vopnuð átök hafi verið í landinu frá því í byrjun mánaðarins.  

Suu Kyi sagði að stjórnvöld væru reiðubúin til að staðfesta réttarstöðu þeirra Róhingja sem flúið hafi yfir landamærin yfir til Bangladess undanfarinn mánuð. Hún brást hinsvegar ekki við ásökunum um þjóðernishreinsanir heldur gaf í skyn að Róhingjar bæru hluta af sökinni þegar hún sagði að meirihluti múslima í Rakhine-héraði væri þar enn og yfir helmingur þorpa þeirra væri óskemmdur.

Þá sagðist hún einnig telja að átökunum, sem brutust 25. ágúst, hafi verið ætlað að grafa undan tillögum Kofis Annans, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, en nefnd undir hans forsæti skilaði af sér tillögum um það hvernig draga mætti úr spennu í Rakhine-héraði daginn áður. Foreign Policy telur raunhæfara að draga þá ályktun um tímasetninguna að leiðtogar ARSA hafi dregið í efa að stjórnvöld í Mjanmar ætluðu sér að koma tillögum Annans í verk. Þeir hafi ekki talið sig eiga annan kost þegar ofbeldið í Rakhine-héraði var að færast í aukana. 

Þeir sem hafa flúið Rakhine hafa sagt sögur af manndrápi, nauðgunum, pyntingum og íkveikjum af hálfu öryggissveita Mjanmars. Suu Kyi segir sveitirnar eiga að fylgja ströngum kröfum og gerð verði rannsókn á hvort mannréttindi hafa verið brotin í Rakhine. Mjanmar megi ekki tvístrast vegna trúarskoðana þjóðarinnar.

Mikil neyð í flóttamannabúðum í Bangladess

Sheikh Hasina Wazed, forsætisráðherra Bangladess, ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna á fimmtudagskvöld og fór þess á leit að Sameinuðu þjóðirnar komi upp sérstökum griðasvæðum í Rakhine-héraði, þar sem Róhingjar geti átt öruggt skjól. Sagði hún nauðsynlegt að flóttafólkið geti snúið aftur til síns heima hið fyrsta, óhrætt, öruggt og með reisn.  

Filippo Grandi, yfirmaður flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, heimsótti flóttamannabúðir Róhingja í Bangladess um helgina og sagði neyðina mikla. Hann segir að lausn vandans sé að finna innan Mjanmar. Þangað til verði að tryggja flóttafólkinu aukna neyðaraðstoð. Rigningartímabil stendur nú yfir í Bangladess og hefur það aukið enn á vandann.